Körfubolti

Curry eftir tap gegn Boston: Snýst um að vinna fjóra leiki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Snýst allt um að vinna fjóra leiki segir Curry.
Snýst allt um að vinna fjóra leiki segir Curry. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Stephen Curry var sjóðandi heitur framan af fyrsta leik Golden State Warriors og Boston Celtics í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í nótt. Það dugði ekki til þar sem Boston vann leikinn 120-108.

Curry fór fyrir sínum mönnum sem máttu á endanum þola tap á heimavelli. Eftir að raða niður þriggja stiga skotum í fyrsta leikhluta hægðist aðeins á Curry sem endaði þó með 34 stig.

Hann var nokkuð niðurlútur er hann ræddi við fjölmiðla eftir leik en segir seríuna langt frá því búna. Það þurfi að vinna fjóra leiki til að verða meistari, eitthvað sem Golden State þekkir nokkuð vel.

„Snýst að mestu um að sjá hvernig serían þróast, að mestu eigum við sex leiki eftir. Þurfum að breyta því sem nauðsynlegt er, þetta snýst um að vinna fjóra leiki sama hvernig svo sem farið er að því.“

„Við gerðum nóg til að vinna leik í 42 mínútur í kvöld, þannig virkar körfubolti einfaldlega ekki. Við munum gera okkar besta til að jafna metin á sunnudagskvöld,“ sagði Curry sem er á báðum áttum með að bíða fram á sunnudagskvöld til að spila næsta leik.

„Tilfinningin er ömurleg og þú vilt komast aftur út á völl eins fljótt og auðið er. En breytingarnar sem við þurfum að gera – að starfslið og leikmenn séu allir á sömu blaðsíðu – fyrir sunnudag, þá er gott að hafa tvo daga milli leikja.“

„Þurfum að vera einbeittir, með sjálfstraust á eigin hæfileikum og hvað við getum þar sem þessi sería er rétt að byrja,“ sagði Curry að endingu.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×