Í aðdraganda árásarinnar hringdi maðurinn, sem hét Michael Louis og var 45 ára gamall, ítrekað á sjúkrahúsið þar sem læknirinn vann og kvartaði yfir bakverkjum. Í árásinni sjálfri leitaði hann lækninn svo uppi og myrti hann og aðra. Maðurinn svipti sig lífi þegar lögregluþjóna bar að garði.

Samkvæmt AP fréttaveitunni skildi Louis bréf eftir sig þar sem gerði lögregluþjónum ljóst að markmið hans var að myrða lækninn og aðra sem urðu á vegi hans.
Skurðlæknirinn hét Preston Philips. Stephanie Husen sem var einnig læknir, Amanda Glenn sem vann í móttöku sjúkrahússins og William Love sem var gestur á sjúkrahúsinu, dóu einnig í árásinni.
Lögreglan segist hafa fregnir af því að Love, sem var 73 ára gamall og hafði fylgt eiginkonu sinni á sjúkrahúsið, hafi verið skotinn við að halda hurð lokaðri svo aðrir hefðu tíma til að flýja undan Louis.
Margar mannskæðar skotárásir hafa átt sér stað í Bandaríkjunum á undanförnum vikum og má þar helst nefna árásina í Buffalo í New York og árásina í Uvalde í Texas.