Erlent

Andrés missir af hátíðarhöldunum vegna kórónuveirunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Andrés fékk ekki að vera með fjölskyldunni sinni í hátíðarhöldunum í dag.
Andrés fékk ekki að vera með fjölskyldunni sinni í hátíðarhöldunum í dag. Getty/Chris Jackson

Andrés prins mun missa af hátíðarhöldunum í tilefni af sjötíu ára valdaafmæli móður sinnar, Elísabetar Bretlandsdrottningar, þar sem hann hefur greinst með Covid-19.  

Andrés mun því missa af þakkargjörðarathöfn í dómkirkju St. Paul á morgun. Elísabet verður heldur ekki viðstödd athöfninni en hún er sögð hafa fundið fyrir slappleika við hátíðarhöldin í dag. 

Andrés er sagður hafa tekið Covid-próf daglega undanfarna daga og ekki hafa greinst smitaður fyrr en í dag. Hann hefur umgengist Elísabetu undanfarna daga en ekki eftir að hann greindist. Elísabet, sem er 96 ára gömul, greindist með kórónuveiruna í febrúar og hefur hún lýst því að veikindin hafi haft langvarandi áhrif á hana og hún hafi fundið fyrir mikilli þreytu eftir þau.

Búist var við því að Andrés tæki þátt í hátíðarhöldum næstu daga þó honum hafi ekki verið boðið í skrúðgöngu Elísabetu til heiðurs sem fór fram í dag. Þá var hann ekki viðstaddur þegar konungsfjölskyldan sýndi sig á svölum Buckingham hallar í dag til að fylgjast með flughernum fljúga hjá. 

Drottningin ákvað fyrir hátíðarhöldin að aðeins starfandi meðlimir konungsfjölskyldunnar fengju að vera á svölunum. Andrés hefur verið sviptur titlinum „Hans hátign“, sviptur konunglegri vernd og leystur frá opinberum störfum. Það var gert eftir að Andrés greiddi hinni bandarísku Virginiu Giuffre tugi milljóna dala í sáttagreiðslur. 

Giuffre var seld mansali af bandaríska auðkýfingnum Jeffrey Epstein og hún sakaði prinsinn um að hafa brotið á sér kynferðislega þegar hún var sautján ára gömul. Andrés hefur neitað sök. 


Tengdar fréttir

Tugir þúsunda fögnuðu drottningu allra drottninga

Hún á tvo afmælisdaga, fæðingardaginn og opinberan afmælisdag og hefur setið lengur en nokkur annar í hásæti Bretlands. Elísabet II Bretlandsdrottning er elskuð og dáð í heimalandinu og víða um heim og í dag var því fagnað með miklum hátíðarhöldum að sjötíu ár eru liðin frá því hún varð drottning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×