Þau Priscilla Chan, eiginkona Zuckerberg, komu til Íslands þann 17. maí en þá lenti einkaflugvél Zuckerbegr á flugvellinum á Akureyri. Þaðan tóku þau þyrlu að Deplum í Fljótum sem er vinsæll dvalarstaður þeirra sem hafa nóg á milli handanna.

Zuckerberg birtir fjórar myndir á Facebook-síðu sinni. Tvær eru teknar að Deplum, þar sem þau Chan njóta vel í heitum potti og fyrir utan hótelið, en hinar tvær í skíðagírnum.
Vinsæl afþreying á Deplum er að fá far upp á fjallstopp með þyrlu og renna sér svo niður.

Lúxusferðaþjónustan að Deplum er í eigu Eleven Experience og hefur verið rekin í á sjötta ár. Fjölmargir heimsþekktir og auðugir erlendir aðilar hafa dvalið að Deplum. Má nefna Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, sem dæmi og Hollywood-leikarann Tom Cruise.

Zuckerberg sagði í athugasemd við færslu með auglýsingu Inspired by Iceland í nóvember á síðasta ári að hann hlakki til að heimsækja „Icelandverse“ bráðlega og má því vera að hann hafi láti verða af því.
Í umræddri auglýsingu fór leikarinn Jörundur Ragnarsson með hlutverk manns, sem svipaði mjög til Zuckerberg, og var að kynna „Icelandverse“. Með auglýsingunni var augljóslega verið að vísa í nýlegri kynningu Zuckerbergs á „metaverse“.