Formlegar viðræður hófust milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í gær. Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, segir viðræður ganga vel og að von sé á að meirihluti verði myndaður strax í næstu viku.
„Við munum næstu daga fara yfir áherslur beggja flokka og vonumst til að klára málefnasamninginn á næstu dögum,“ segir Ásdís í samtali við Vísi.
Langstærsti flokkurinn gerir tilkall til bæjarstjórastólsins
Ásdís fer ekki leynt með það að hún ætli sér að verða næsti bæjarstjóri Kópavogs. „Við höfum auðvitað sagt það opinberlega að við, sem langstærsti flokkurinn, gerum tilkall til bæjarstjórastólsins. Sú afstaða hefur ekki breyst,“ segir Ásdís.
Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknarmanna í Kópavogi, sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að það hefði áhrif á viðræður að Ásdís hafi verið mjög skýr um að hún vilji bæjarstjórastólinn.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra bæjarstjórnarfulltrúa kjörna og Framsókn tvo. Ellefu menn skipa bæjarstjórn Kópavogs og myndu flokkarnir tveir því mynda minnsta mögulega meiri hluta.