„Ég hef talað fyrir því að við viljum færa einhver verkefni frá spítalanum vegna þess að ég held að það sé öllum ljóst af almennum fréttaflutningi sem stöðugt er af spítalanum að við erum með óhófleg verkefni sem við ráðum illa við með þeim mannafla sem við höfum. Það kemur niður á okkar aðstöðu til að sinna bráðveikum og slösuðum á bráðamóttökunni sem er yfirfull af því að við höfum ekki legurými,“ segir Runólfur í samtali við fréttastofu.
Heilbrigðisráðuneytið leiti nú leiða til að færa þá starfsemi sem ekki sé hluti af kjarnastarfsemi spítalans í hendur annarra. Starfsemin á Vífilsstöðum sé eitt að því sem komi þar sterklega til greina en málið er á borði ráðuneytisins.
„Málið er ekki í okkar höndum en við bara vitum af því og höfum átt viðræður við heilbrigðisráðuneytið um að þessi starfsemi sé kannski efst á blaði þegar kemur að tilfærslu verkefna,“ segir Runólfur. Hann segist ekki þekkja hver staða málsins er á þessu stigi.

Tilkynnti starfsmönnum fyrirætlanirnar í gær
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, tilkynnti starfsmönnum Vífilsstaða um fyrirætlanirnar í gær. Þrátt fyrir það segir Runólfur að engar nýjar vendingar séu í málinu.
„Við vildum bara hafa vaðið fyrir neðan okkur og kynna þetta fyrir starfsfólkinu þannig að það væri upplýst og það kæmi ekki aftan að neinum.“ Stjórnendur bindi vonir við hægt verði að halda í starfsfólkið og nýta það í önnur verkefni innan spítalans.
„Við á Landspítalanum höfum átt erfitt uppdráttar vegna óhóflegra verkefna í langan tíma og ég hef beitt mér fyrir því frá því að ég tók við að við verðum að finna lausn á þessu, vegna þess að það syrtir stöðugt í álinn. Við erum í stórfelldum vandræðum með að sinna bráðveikum sem til okkar leita alla daga, bæði vegna manneklu en líka aðstöðuleysis,“ bætir Runólfur við.
Hann sér tækifæri í mögulegri tilfærslu Vífilsstaða og vonast eindregið til að halda starfsfólkinu þar svo hægt sé að nýta það annars staðar á spítalanum.