Erlent

Erdogan vill fá „hryðjuverkamenn“ afhenta gegn samþykki fyrir aðild

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ljóst er að Svíar og Finnar munu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá samþykki frá Tyrkjum.
Ljóst er að Svíar og Finnar munu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá samþykki frá Tyrkjum. epa/Stephanie Lecocq

Reuters greinir nú frá því að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi gefið út hvað hann vill fá gegn því að samþykkja aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu.

Fréttaveitan hefur eftir forsetanum að ríkin fái ekki aðild nema ef þau framselja „hryðjuverkamenn“ innan landamæra sinna.

Erdogan sagði í ræðu sem hann hélt fyrir þingmenn AK-flokksins að Tyrkjum bæri að vernda landamæri sín fyrir árásum frá hryðjuverkasamtökum. Stækkun Nató hefði þá aðeins þýðingu fyrir Tyrkland ef tekið væri tillit til andmæla þeirra.

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa sakað Svía og Finna um að skjóta skjólshúsi yfir einstaklinga sem þau segja tengjast hópum sem Tyrkir álíta hryðjuverkahópa, til að mynda PKK og fylgjendur Fethullah Gulen.

Fjölmiðlar í landinu sögðu frá því á mánudag að Svíar og Finnar hefðu neitað að framselja 33 einstaklinga sem tilheyrðu þessum hópum, líkt og Tyrkir hefðu farið fram á.

„Þið viljið ekki afhenda okkur hryðjuverkamennina en þið biðjið okkur um aðild að Nató? Nató er vettvangur til að tryggja öryggi, bandalag um öryggi. Þannig getum við ekki sagt já við því að öryggisbandalagið sé svipt öryggi,“ sagði forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×