Daníel hefur verið sterklega orðaður við Stjörnuna undanfarnar vikur. Hann var í byrjunarliðinu í fyrstu tveimur leikjum Leiknis í Bestu deildinni en var settur á bekkinn gegn ÍBV í 3. umferð og var utan hóps gegn Víkingi um helgina.
Stjarnan kynnti Daníel til leiks með skemmtilegu myndbandi sem birtist á Facebook.
Daníel, sem er 21 árs, lék tuttugu leiki með Leikni í Pepsi Max deildinni á síðasta tímabili og skoraði tvö mörk. Hann lék áður samtals 38 leiki með Breiðhyltingum í Lengjudeildinni.
Daníel lék sinn fyrsta með U-21 árs landsliðinu þegar Ísland mætti Kýpur í undankeppni EM í mars.
Stjarnan hefur góða reynslu af leikmönnum frá Leikni. Fyrir tímabilið 2016 fengu Garðbæingar Hilmar Árna Halldórsson sem er markahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild frá upphafi.