Skoðun

Hvað hefur Framsókn gert fyrir Reykjavík?

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Ég á auðvelt með að skilja Reykvíkinga sem kjósa Framsókn. Framsókn hefur í gegnum árin barist heilshugar fyrir uppbyggingu landsins alls og þar er höfuðborgin engin undantekning. Við í Framsókn höfnum öfgum til hægri og vinstri, við viljum mætast á miðjunni og finna lausn á úrlausnarefnum samtímans með samvinnu að leiðarljósi.

Dæmin um það sem Framsókn hefur gert fyrir Reykvíkinga verða ekki öll talin upp hér, en eftirfarandi eru nokkur dæmi:

● Framsókn kom á fót frístundakortinu. Korti sem veitir fjölda reykvískra barna tækifæri til þess að stunda þá frístund sem þeim dreymir um. Þess má einnig geta að framboð Framsóknar í Reykjavík fyrir komandi kosningar vill hækka styrkinn úr 50 þúsund í 75 þúsund á næsta kjörtímabili.

● Hagsmunir barnanna okkar eru hagsmunir framtíðarinnar. Framsókn kom á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Lög sem tryggja að börn séu í hjarta kerfisins og að aðilar sem koma að þjónustu við börn vinni saman með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Lögin fela í sér grundvallarbreytingu í barnavernd.

● Framsókn batt hnút á lausa spotta í samgöngumálum á Höfuðborgarsvæðinu með því að leiða saman sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu og ríkið til gerðar samgöngusáttmála. Tímamótasáttmála sem gerir ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum við innviði allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrautir, göngu- og hjólastíga og bættar almenningssamgöngur.

● Framsókn hefur staðið fyrir því að hér verði byggt hús íslenskunnar sem mun opna á næsta ári. Hús íslenskunnar muna færa tungumálinu okkar nýtt og glæsilegt lögheimili í Vesturbænum.

● Framsókn kom á fót sérstökum hlutdeildarlánum til að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin eru ólík þeim hefðbundnu fasteignalánum sem við flest þekkjum, að því leyti að ríkið lánar ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem tekju- og eignalitlir fyrstu kaupendur hyggjast kaupa. Hlutdeildarlánin virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun. Ríkið lánar síðan restina. Hlutdeildarlán hafa og munu koma til með að auðvelda fjölda Reykvíkinga, sem og landsmanna, að eignast eigið húsnæði. Lánin eru þó háð því að sveitarfélög eins og borgin tryggji lóðaframboð á viðráðanlegu verði til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Það vill framboð Framsóknar í borginni einmitt gera. Við í Framsókn viljum mæta mikilli eftirspurn eftir húsnæði í borginni með því að byggja meira, hraðar og fjölbreyttara húsnæði. Markmiðið er 3000 íbúðir á ári.

● Framsókn lagði fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Sundabraut er eitt þeirra sex verkefna sem talað var um sem samvinnuverkefni og hefur Alþingi heimilað Sundabraut sem samvinnuverkefni. Lagning Sundabrautar er ein arðsamasta framkvæmd sem um getur hér á landi með um 11% innri raunvexti. Þar að auki gæti heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu minnkað um 150 þúsund kílómetra á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar. Undirbúningur miðast við að framkvæmdir hefjist 2026 og Sundabrautin verði tekin í notkun 2031. Framboð Framsóknar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar vill tryggja að Sundabraut verði að veruleika með sem hröðustum hætti.

● Framsókn skrifaði undir viljayfirlýsingu um að framkvæmdum við nýja þjóðarhöll í Laugardal verði lokið árið 2025. Þjóðarhöllin verður nýtt heimili fyrir landslið Íslands í inniíþróttum og notuð til æfinga fyrir íþróttafélögin í Laugardal, sem Reykvíkingar munu svo sannarlega njóta góðs af.

● Framsókn hefur sýnt vilja í verki með því að auðvelda nýbökuðum foreldrum lífið á fyrsta æviári barna og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að lengja fæðingarorlofið upp í tólf mánuði. Til þess að þetta nái fram að ganga þarf borgarstjórn líka að setja í forgang að leysa úr dagvistunarvanda barna með því tryggja dagvistunarúrræði sem taka mið af þörfum foreldra að fæðingarorlofi loknu. Framboð Framsóknar í Reykjavík fyrir komandi kosningar vill því eyða biðlistum eftir leikskólaplássum og auka sveigjanleika í opnunartíma án þess að lengja skóladag barna. Framsókn vill einnig efla dagforeldrakerfið og bjóða heimgreiðslur með barni sem bíður eftir leikskólaplássi til að brúa bilið.

Mér þykir vænt um Reykjavík, hún er heimilið okkar og höfuðstaður. Það er margt sem borgin gerir vel og á skilið lof fyrir, en ekkert er svo gott að ekki megi bæta og breyta. Við í Framsókn viljum bretta upp ermar og ganga í þau verk sem eru fyrir hendi.

Við í Framsókn viljum vinna í samvinnu við borgarbúa að breytingum í borginni og höfum birt stefnuskrá með þeim breytingum sem við viljum sjá. Leðjuslagur í ráðhúsinu skilar engum árangri, heldur grefur hann undan störfum borgarstjórnar. Kannanir um traust til borgarstjórnar hafa einmitt leitt þetta í ljós þar sem traust til borgarstjórnar mælist minna en til bankakerfisins. Nú er staðan þó þannig að Framsókn hefur ekki setið í borgarstjórn í 8 ár og svo sannarlega kominn tími á breytingar og aukna samvinnu á miðjunni í borgarstjórn.

Til þess að Framsókn komist að í borginni þarft þú að merkja X við B 14. maí.

Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?

Höfundur er formaður Ung Framsókn í Reykjavík og skipar 3. sæti á lista Framsóknar í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram 14. maí n.k.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×