Innlent

Ákærði læknirinn hættur eftir tvær vikur í starfi hjá HSN

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Læknirinn hafði starfað í tvær vikur á Heilsugæslunni á Húsavík. Hann lauk störfum í dag.
Læknirinn hafði starfað í tvær vikur á Heilsugæslunni á Húsavík. Hann lauk störfum í dag. Vísir/Vilhelm

Læknir sem er ákærður fyrir ofbeldi gegn eiginkonu sinni og þremur börnum hætti í dag störfum hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Þetta staðfestir forstjóri stofnunarinnar í samtali við fréttastofu. Hann hafði verið við störf hjá stofnuninni í tvær vikur.

Greint var frá því í gær að læknir á Vestfjörðum hafi verið ákærður fyrir ofbeldi gegn eiginkonu sinni og þremur börnum. Vísir greindi jafnframt frá því að lækninum hafi verið sagt upp störfum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða árið 2013 og var málið til umfjöllunar hjá fjölmiðlum á sínum tíma. 

Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sagði í samtali við fréttastofu í gær að læknirinn hafi ekki verið í föstu starfi hjá stofnuninni frá árinu 2013. Hann hafi komið inn til afleysinga í örfá skipti, vo hægt væri að telja á fingrum annarrar handar, og síðast árið 2020. 

Höfðu ekki vitneskju um ákæruna

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir í samtali við fréttastofu að læknirinn hafi í dag lokið störfum hjá stofnuninni. Hann hafði starfað í tvær vikur hjá Heilsugæslunni á Húsavík. 

„Hann er búinn að vera við störf í tvær vikur hjá okkur,“ segir Jón Helgi og segir að læknirinn hafi ekki starfað áður hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. 

Hann segir starfslok læknisins ekki tengjast ákærunni með beinum hætti. Þá vildi hann ekki tilgreina hvort lækninum hafi verið sagt upp störfum eða hvort hann hafi sjálfur sagt upp.

Jón Helgi segir stjórnendur hafa vitað af uppsögn læknisins á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða árið 2013. 

„Ég held að það hafi nú verið opinbert í sjálfu sér í fjölmiðlum. En varðandi þetta mál sem er til umfjöllunar í fjölmiðlum núna þá höfðum við enga vitneskju um það.“


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir brot gegn eiginkonu og þremur börnum

Karlmaður á Vestfjörðum hefur verið ákærður fyrir ofbeldi gegn eiginkonu og þremur börnum frá árinu 2014 og þar til sambandi þeirra lauk árið 2021. Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Vestfjarða en þinghald í málinu er lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×