Íslenski boltinn

Völlurinn snævi þakinn og þjálfari Þórs/KA ekki lengur svekktur

Sindri Sverrisson skrifar
Íslandsmeistarar Vals unnu flottan sigur á Þrótti í fyrsta leik. Þeir leika á Akureyri í kvöld en þó ekki á aðalvellinum á Þórssvæðinu, skiljanlega.
Íslandsmeistarar Vals unnu flottan sigur á Þrótti í fyrsta leik. Þeir leika á Akureyri í kvöld en þó ekki á aðalvellinum á Þórssvæðinu, skiljanlega. Twitter/@jonsi82 og Vísir/Vilhelm

Þór/KA tekur á móti Íslandsmeisturum Vals í fyrsta heimaleik sínum í Bestu deild kvenna á þessari leiktíð. Leikið verður innandyra á Akureyri í kvöld.

SaltPay-völlurinn, sem er heimavöllur Þórs/KA, er ekki tilbúinn og því þurfa liðin að mætast í Boganum í kvöld.

Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara Þórs/KA, birti mynd af snævi þöktum SaltPay-vellinum í morgun og viðurkenndi að hann væri ekki lengur svekktur yfir því að leikurinn í kvöld yrði innandyra.

Skelfilegt gengi á heimavelli í fyrra

Þór/KA hóf síðustu leiktíð einnig inni í Boganum og lék þar fyrstu tvo heimaleiki sína. Liðið lék því fyrsta heimaleikinn utandyra ekki fyrr en 5. júní.

Heimavellirnir skiluðu Þór/KA litlu á síðustu leiktíð. Liðið vann aðeins einn af níu heimaleikjum sínum en var aftur á móti með þriðja besta árangur allra liða á útivöllum.

Besta deild kvenna, 2. umferð

  • Þriðjudagur:
  • 18.00 ÍBV – Selfoss (Stöð 2 Sport)
  • 18.00 Þór/KA – Valur (Stöð 2 Besta deildin)
  • 19.15 Þróttur – Afturelding (Stöð 2 Besta deildin 2)
  • Miðvikudagur:
  • 19.15 Keflavík – Breiðablik (Stöð 2 Sport 4)
  • 19.15 Stjarnan – KR (Stöð 2 Besta deildin)
  • Fimmtudagur:
  • 20.00 Bestu mörkin (Stöð 2 Sport 4)

Karlalið Þórs leikur einnig heimaleiki sína á SaltPay-vellinum en byrjar tímabilið í Lengjudeildinni inni í Boganum með leik við Kórdrengi á föstudaginn.

Karlalið KA varð að byrja tímabilið í Bestu deildinni í ár, líkt og í fyrra, á því að spila heimaleiki sína á Dalvíkurvelli sem lagður er með gervigrasi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×