Innlent

Stóri plokk­dagurinn fer fram í dag: „Einn af ís­lensku vor­boðunum“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetahjón plokkuðu við Landspítalann í fyrra.
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetahjón plokkuðu við Landspítalann í fyrra. Mummi Lú

Stóri plokkdagurinn fer fram í dag þar sem fólk um allt land kemur saman og stuðlar að hreinna umhverfi. Umhverfis-, auðlinda- og orkumálaráðherra byrjar dagskrá formlega klukkan 10.00 neðst við Gufunesveg og forsetahjónin slást í hópinn klukkan 13.00.

Stóri plokkdagurinn er nú haldinn í fimmta sinn og skipuleggjendur segja hann vera „einn af íslensku vorboðunum.“ Langflest sveitarfélög taka þátt í plokkdeginum og þá nýtir fjöldi fyrirtækja daginn til að taka til hendinni.

Í ár stefnir í metþátttöku en gert er ráð fyrir mildu veðri á landinu öllu. Samkvæmt veðurspám verður til að mynda heiðskírt á höfuðborgarsvæðinu eftir hádegi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, auðlinda- og orkumálaráðherra, hefur viðburðinn formlega klukkan 10.00 neðst við Gufunesveg í Reykavík. Öllum er velkomið að slást í hópinn og skipuleggjendur verða með glæra poka og pallbíl til að koma ruslinu rétta leið. Þátttakendur eru beðnir um að koma með hanska og plokku, eins og segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.

Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra mun taka þátt.Mummi Lú

Þá munu Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetahjón plokka Arnarnesveginn milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar klukkan 13 í dag.

„Að plokka gefur fólki tækifæri til að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki. Að plokka fegrar umhverfi okkar og náttúru en víða er mikið af plasti og öðru rusli eftir stormasaman vetur,“ segja skipuleggjendur.

Á síðunni Plokk á Íslandi á Facebook er hægt að  fylgst með gangi mála í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×