Flugvélin er af gerðinni Cessna 172N og var eigandi hennar Haraldur Diego. Hann lést ásamt þremur farþegum þegar flugvélin hafnaði í Þingvallavatni í byrjun febrúar. Farþegarnir voru allir erlendir ferðamenn.
Ís olli björgunarmönnum ama
Björgunaraðgerðir stóðu yfir í nokkra daga eftir að flugvélin fannst þann 4. febrúar síðastliðinn og var lögð áhersla á að koma líkum mannanna úr flakinu. Ís á vatninu torveldaði allar aðgerðir og því hætt var við að reyna að ná flakinu sjálfu upp fyrr en nú.

Í færslu á heimasíðu lögreglunnar frá því á miðvikudaginn segir að gert hafi verið ráð fyrir því að aðgerðir hefjist með sjósetningu og prófunum á tækjabúnaði klukkan níu í morgun.
„Setja þarf upp tjaldbúðir með aðstöðu fyrir björgunarmenn, öryggisbúnaður vegna köfunar. Einnig verður Björninn fjarskiptabíll Landsbjargar á vettvangi til að tryggja fjarskipti. Auk þessa eru prammar sem nýttir verða sem aðstaða úti á vatninu og einnig til að hífa flugvéla af botni Þingvallavatns og færa að landi,“ segir í tilkynningunni.
Allt yfirflug loftfara um svæðið er bannað og tók það bann gildi klukkan átta í morgun. Banninu líkur þegar aðgerðum er lokið.




