Málið kom upp í janúar en atvinnuréttindi skipstjórans höfðu runnið út rétt fyrir jól 2021. Hann hafði hins vegar áfram siglt Herjólfi eftir það, þangað til hann fékk réttindin endurnýjuð, í byrjun janúar. Skráði hann nöfn annarra skipstjóra í stað síns eigins án þeirra vitundar þegar hann var að sigla.
Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs, sagði í samtali við fréttastofu í lok janúar að málið væri litið alvarlegum augum. Skipstjórinn hafði þá verið sendur í leyfi og var lögreglurannsókn hafin. Þá höfðu að minnsta kosti fjórir starfsmenn Herjólfs sagt upp störfum vegna málsins.
„Þetta mál er til þess fallið að við þurfum klárlega að líta inn á við,“ sagði Hörður þá í samtali við fréttastofu, aðspurður um hvort uppsagnirnar gæfu til kynna að taka þyrfti á innri málum Herjólfs.
Hörður vildi ekki tjá sig um það í viðtali við mbl í dag af hverju það er fyrst að koma til starfsloka skipstjórans núna en ekki þegar málið kom fyrst upp.
Segir hann að skerpt hafi verið á verklagsreglum og reiknar hann með að atvik á borð við þetta endurtaki sig ekki.
Ekki náðist í framkvæmdastjóra Herjólfs við vinnslu fréttarinnar.