Að sögn lögreglu hefur verið grennslast fyrir um Gabríel víða en án árangurs fram til þessa.
Gabríel er sjálfur hvattur til að gefa sig fram og að gefnu tilefni nefnir lögregla að það sé refsivert að aðstoða brotamann við að losna undan handtöku og refsingu.
Kristján Helgi Þráinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að málið sé enn í rannsókn. Lögregla sé nú byrjuð að leiða hugann að því að einhverjir hljóti að aðstoða hann á flóttanum. Hún hafi í dag beint sjónum að vinum Gabríels og stefnt var að skýrslutökum í dag.
Gabríel slapp úr haldi lögreglu um sjö leytið á miðvikudag en hann var þá fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem mál hans var til meðferðar.
Það hefur vakið athygli að lögregla hefur tvívegis haft afskipti af ungum drengi sem er dökkur á hörund, líkt og Gabríel, eftir að tilkynningar bárust frá borgurum.
Í tilkynningu frá lögreglu er fólk hvatt til að sína varkárni í samskipum um þetta mál sem og önnur sem tengjast minnihlutahópum.
„Fordómar eiga aldrei rétt á sér. Leit að hættulegu fólki má ekki verða til þess að minnihlutahópar í okkar samfélagi upplifi óöryggi eða ótta,“ segir í tilkynningunni.
Lögregla segir þó mikilvæg að þau fylgi áfram ábendingum sem berast að gættu meðalhófi og virðingu.
Fréttin hefur verið uppfærð.