Sara tjáir sig um þetta í hlaðvarpsþættinum Their Pitch. Þar segir hún Íslendinga sannarlega spennta fyrir því að fara á stórmót á Englandi enda með sterka tengingu við enska boltann. Hins vegar sé grátlegt að Ísland mæti þar bæði Ítalíu og Belgíu á akademíuleikvangi Manchester City.
Akademíuleikvangurinn tekur aðeins 4.700 manns í sæti, samkvæmt heimasíðu UEFA, og að sjálfsögðu er orðið uppselt á báða leikina þó að EM hefjist ekki fyrr en í júlí. Þriðji leikur Íslands er svo í Rotherham, gegn Frakklandi, en sá leikvangur tekur 11.000 manns í sæti.
„Ég er svolítið vonsvikin með leikvangana sem við fengum. Það er átakanlegt að með alla þessa leikvanga sem eru í boði á Englandi þá séum við á æfingavelli Manchester City sem tekur um 4-5.000 áhorfendur. Þetta er vandræðalegt,“ segir Sara Björk.
Sara Björk Gunnarsdóttir on the arenas in the euros this upcoming summer.
— Amanda Zaza (@amandaezaza) April 19, 2022
When something like this happens you take a step back. I am disappointed with the arenas we have been given. It s shocking, embarrassing and disrespectful to women s football
[@theirpitch] pic.twitter.com/dPoexdgvj1
„Maður sér í kvennafótboltanum í dag hvernig er verið að fylla stóru leikvangana. Það mættu 95.000 manns á Barcelona – Real Madrid. Það er vandræðalegt að menn búist ekki við því að það seljist fleiri en 4.000 miðar. Þetta er vanvirðing gagnvart kvennafótbolta á þessu stigi því þetta er svo mikið stærra en fólk heldur.
Manni finnst við alltaf vera að taka tvö skref fram á við en svo kemur eitthvað svona sem tekur okkur aftur á bak. En það verða leikir á stórum leikvöngum á mótinu og ég er viss um að það verður uppselt. Kvennafótboltinn er að springa út og fá þá virðingu sem fótboltinn á skilið. Það er meiri peningur í kvennafótboltanum núna, meiri fjárfesting, og þetta er á réttri leið,“ segir Sara í Their Pitch.
Telur að 20.000 Íslendingar myndu vilja koma
Stjórnandi þáttarins bendir þá á að karlalandsliðum yrði aldrei boðið upp á að spila á 4.700 manna leikvangi á stórmóti og Sara ítrekar óánægju sína með skipuleggjendur mótsins:
„Ég veit ekki hvað er í gangi í hausnum á þeim eða hvort þeir eru bara yfirhöfuð eitthvað að fylgjast með því sem er í gangi í kvennafótbolta. Ef að menn gerðu það þá væri bara almenn skynsemi að hafa hlutina öðruvísi. Það er bara vitleysa að þurfa að tala um þetta. Það er svekkjandi. Það gætu hæglega komið 20.000 manns frá Íslandi til að horfa á leikina. Fjölskyldumeðlimir áttu erfitt með að fá miða því þeir seldust bara strax upp,“ segir Sara og tekur undir að skoða ætti að færa leikina á stærri leikvanga þar sem að enn sé tími til stefnu.