Skógrækt er alltaf að aukast á Íslandi og er mikill áhugi hjá fyrirtækjahópum, félagasamtökum og einstaklingum að fá að gróðursetja enda eru margir hafa samband við starfsmenn Skógræktarinnar til að spyrjast fyrir um þessi mál.
„Síðan eru fyrirtæki, erlend fyrirtæki, sem innlend að hafa samband og í sjálfum sér er þetta vegna þess að þau sjá sína sæng útbreidda. Það er búið að taka þá ákvörðun hér og í öðrum löndum að við ætlum að vera kolefnishlutlaus,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri og bætir við.
„Fyrirtæki sjá alveg fram á það að í framtíðinni og bara náinni framtíð, það er stutt í þetta, þá verði þeim gert að skila grænu bókhaldi, sem þarf þá að sýna fram á að þau séu kolefnishlutlaus sjálf af því að Ísland verður ekkert kolefnishlutlaust nema að allir á Íslandi séu það.“

Þröstur segir mjög ánægjulegt að sjá hvað skógrækt á Íslandi er vinsæl í dag.
„Já, það er allavega mikill áhugi, við finnum fyrir því. Fólk kemur til okkar, við þurfum eiginlega ekkert að auglýsa. Skógarbændum fjölgar og fleiri og fleiri hafa áhuga og svo er fólk, sem vill leggja okkur lið við að binda kolefni og fjármagna það, það er mikill áhugi á því og þar sjá menn ýmsa möguleika. Sumir vilja græða en flestir vilja bara gera gagn,“ segir Þröstur.
