Besta deild karla í knattspyrnu hófst í dag með opnunarleik milli Íslands- og bikarmeistara Víkinga og FH-inga úr Hafnarfirði en liðin mættust á heimavelli Víkinga í Fossvogi. Leikurinn fór fjörlega af stað og átti eftir að vera frábær skemmtun allt til lokaflautu. Víkingar fóru með sigur af hólmi, 2-1, og halda þar með sigurgöngu sinni frá síðasta tímabili áfram.
Það var FH sem byrjaði betur og það strax á fyrstu mínútu leiksins. FH vann innkast hátt á vellinum eftir upphafsspyrnuna. Ólafur Guðmundsson tók innkastið og kastaði á Matthías Vilhjálmsson inni í teig Víkinga. Matthías sendi boltann út á Steven Lennon sem tók vel á móti boltanum, lagði hann fyrir sig og skoraði fram hjá Ingvari Jónssyni í marki Víkinga. FH-ingar komnir yfir og aðeins 30 sekúndur búnar af leiknum og deildinni yfir höfuð þetta sumarið.
Eftir markið voru það Víkingar sem voru sterkari aðilinn. Bæði Erlingur Agnarsson og Helgi Guðjónsson fengu sitthvort færið sem þeir náðu ekki að nýta en það var svo Ari Sigurpálsson sem varð fyrstur Víkinga til að nýta sitt færi. Kristall Máni komst þá inn í sendingu Finns Orra Margeirssonar út úr vörninni og var fljótur að senda Erling Agnarsson í gegn. Finnur Orri mætti aftur með góða tæklingu til þess að stoppa hann en boltinn fór þá til Ara sem átti góðan snúning og gott skot sem Gunnar Nielsen, markvörður FH, réði ekki við. Víkingar búnir að jafna leikinn eftir 28 mínútur.
Átta mínútum síðar voru Víkingar grátlega nálægt því að taka forystuna í leiknum. FH átti horn sem Víkingar náðu að hreinsa frá og allt í einu voru Ari Sigurpálsson og Kristall Máni tveir einir á leið í átt að marki FH. Ari renndi boltanum vel fyrir markið og Kristall þurfti ekki að gera neitt annað en að stýra boltanum yfir línuna en honum tókst að setja skotið í stöngina. FH-ingar máttu prísa sig sæla að komast inn í hálfleik með jafna stöðu, 1-1.
Í upphafi síðari hálfleik héldu Víkingar uppteknum hætti. Það voru þeir sem voru meira með boltann og voru hættulegri fram á við. Víkingar komust svo yfir á 60. mínútu. Viktor Örlygur tók þá stutta hornspyrnu á Kristall Mána sem sendi boltann fyrir markið. Á nær stöngina mætti Helgi Guðjónsson fljúgandi og skallaði boltann áfram og í netið fjær. Víkingar komnir yfir, 2-1, eftir að hafa lent undir strax á 1. mínútu leiksins.
Það sem eftir lifði leiks reyndu FH-ingar að setja pressu á Víkingana og síðustu tíu mínúturnar lá mikið á Víkingum en líkt og gegn Breiðablik í leiknum í Meistarakeppninni þá héldu Víkingar út með góðri vörn og stóðu uppi sem sigurvegarar að lokum. Þetta er í fyrsta skipti í fjögur ár sem lið hefur titilvörn sína á sigri og sömuleiðis í fyrsta sinn í ellefu ár sem FH er stigalaust eftir fyrstu umferð. Tölfræði í boði Óskars Ófeigs.
Af hverju vann Víkingur?
Þeir unnu vegna þess að þeir voru skilvirkari í sóknaraðgerðum sínum. Víkingar hefðu getað unnið þennan leik stærra. Varnarleikurinn var mjög öflugur í kvöld og gáfu þeir FH ekkert nema hálf færi.
Hverjir voru bestir?
Í liði Víkinga voru Halldór Smári og Ari Sigurpálsson bestir. Ari skoraði fyrra mark Víkings og hefði átt að leggja upp mark fyrir Kristall Mána er hann skaut í stöngina. Halldór Smári stýrði öllu sem fram fór í vörn Víkings og stoppaði mjög margar álitlegar sóknir FH.
Hjá FH var Guðmundur Kristjánsson maður leiksins. Ég hef ekki tölu á því hversu oft hann var réttur maður á réttum stað þegar Víkingar reyndu að sækja hratt upp völlinn.
Hvað má betur fara?
Fyrra mark Víkings kemur eftir slæma sendingu frá Finni Orra upp úr vörninni. Þetta var alls ekki í eina skiptið sem það gerðist í leiknum og FH-ingar þurfa að samrýna uppspilsleiðir sínar fyrir næstu leiki.
Sóknarleikur FH virkaði sömuleiðis oft á tíðum hugmyndasnauður þegar kom að því að skapa alvöru færi við mark Víkings.
Hvað gerist næst?
Besta deildin heldur áfram og verður hér út Október.
FH fær nýliða Fram í heimsókn í Kaplakrika kl. 18 mánudaginn 25. apríl á meðan Víkingur heimsækir ÍA á Akranes sunnudaginn 24. apríl kl. 18.
Ólafur Jóhannesson: Við vorum bara ekki með
Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, var svekktur með tapið í kvöld.
„Auðvitað er maður alltaf fúll að tapa leikjum en ég er alveg þokkalega ánægður með frammistöðuna. Svolítið sérstakt að segja það en mér fannst byrjunin ekki nógu góð hjá okkur, þó það sé ótrúlegt að segja það. Mér fannst við ekki vera nógu öflugir fyrsta hálftímann. Það er alltaf gott að skora en stundum þegar lið skora snemma þá fara þau svona í ákveðinn leik og mér fannst gera það og ekki þora nógu miklu. Við vorum ekki beint værukærir en við vorum bara ekki með. Héldum boltanum illa og þorðum ekki að halda honum. Við vörðumst ágætlega og vorum svosem ekkert að gefa mörg færi á okkur,“ sagði Ólafur.
Að lokum var Ólafur spurður út í tíst frá Martin Hermanssyni, landsliðsmanni í körfubolta, þar sem hann spurði hvort eðlilegt væri að Eggert Gunnþór Jónsson væri að spila þennan leik á meðan hann væri undir rannsókn lögreglu vegna ofbeldismáls. Ólafur vildi ekkert um það segja og svaraði einfaldlega, „ég vil ekki svara því“.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.