Valur sigraði Hauka með sex marka mun í Olís-deild karla í handbolta, 40-34 lokatölur í markaleik. Bæði lið voru án aðalmarkvarða sinna, Björgvin Páll frá vegna höfuðmeiðsla og þá var Aron Rafn Eðvarðsson fjarri góðu gamni hjá Haukum.
Í viðtali við RÚV sagði Björgvin Páll að hann þyrfti að hvíla næstu daga en staðan yrði endurmetin dag frá degi. Með algjörri hvíld ætti hann að geta snúið aftur til keppni eftir sjö daga. Líkurnar á að hann missi af lokaleik Olís-deildar karla, þegar Valur og Selfoss mætast, eru því meiri en minni. Með sigri gæti Valur tryggt sér deildarmeistaratitilinn.
Í viðtalinu sagði Björgvin Páll einnig að hann stefndi á að vera klár fyrir landsleik Íslands og Austurríkis í umspili um sæti á HM í Svíþjóð og Póllandi á næsta ári. Fyrri leikurinn fer fram í Austurríki á miðvikudeginum í næstu viku, 13. apríl, og síðari leikurinn á Ásvöllum þann 16. apríl.