Flugmóðurskipið er það nýtt að það telst enn vera í reynslusiglingum, sem hófust í fyrra, en ekki er gert ráð fyrir að það verði komið í fulla þjónustu breska sjóhersins fyrr en á næsta ári.
Hingað kemur það frá Noregsströndum þar sem það tók þátt í sinni fyrstu heræfingu, Cold Response.
Koma skipsins til Íslands tengist þó ekki varnaræfingunni Norður-Víkingi heldur er liður í reynslusiglingum skipsins um Norður-Atlantshaf.

Skipið er 280 metrar á lengd og 73 metrar á breidd. Það slagar því upp í þrjá knattspyrnuvelli á lengd og er litlu breiðari en hæð Hallgrímskirkju.
Athugasemd ritstjórnar
Upphaflega stóð í fréttinni að Prinsinn væri hér á landi í tengslum við varnaræfinguna Norður-Víking 2022. Hið rétta er að vera skipsins tengist æfingunni ekki.


