Tökur á Netflixstórmyndinni Heart of stone fara fram hér á landi um þessar mundir. Ef marka má myndband sem íbúi við Sæbraut birti í dag verður myndin æsispennandi.
Í myndbroti á samfélagsmiðlinum TikTok sést kvikmyndargerðarfólk taka upp eltingarleik tveggja stórra sendiferðabíla. Nokkuð sérhæfðan búnað þarf til þess en í myndbandinu má sjá sérútbúinn Porsche Cayenne með stærðarinnar krana.
Myndbandið, sem notandinn pelarvk deildi í dag, má sjá hér að neðan. Við myndbandið skrifar hann „When your street goes Hollywood!“ en það gæti útlagst „Þegar gatan þín breytist í Gufunes!“