Þá fengu 140 innlendir einkafjárfestar, sem voru skilgreindir sem fagfjárfestar, úthlutað bréfum í útboðinu fyrir um 16 milljarða króna, eða tæplega 31 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkissjóður seldi. Samtals var 22,5 prósenta hlutur í bankanum seldur fyrir nærri 53 milljarða króna.
Þetta kemur fram í kynningu á söluferlinu sem Bankasýslan hélt í morgun fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál.
Meginþorri verðbréfasjóða, fjársterkra einstaklinga og tryggingafélög, sem voru metnir langtímafjárfestar af hálfu Bankasýslunnar, fengu úthlutað bréfum í bankanum sem nam yfir 40 prósentum af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í hinu lokaða útboði til fagfjárfesta, eins og Innherji hefur áður greint frá. Það sama átti við um lífeyrissjóði en líta verður til þess að þeir sóttust eftir því að kaupa mun stærri hlut í krónum talið en flestir aðrir sem skiluðu inn tilboðum.
Lífeyrissjóðurinn Gildi, sem átti fyrir útboðið um 3,4 prósenta hlut, var stærsti einstaki fjárfestirinn og keypti fyrir samanlagt 3,5 milljarða króna og fer núna með rétt rúmlega 5 prósenta eignarhlut í bankanum.
Í kynningu Bankasýslunnar kemur jafnframt fram að erlendir fjárfestingarsjóðir hafi verið með um 15 prósent þeirrar fjárhæðar sem var seld í útboðinu og keyptu þeir því fyrir samtals 7,9 milljarða króna. Að þeim kaupum stóðu samtals 19 sjóðir. Þá keyptu innlendir verðbréfasjóðir, eins og meðal annars í stýringu Íslandssjóða, Akta, Stefnis, Landsbréfa og Kviku eignastýringar, fyrir 5,6 milljarða króna.
Bréfin sem ríkissjóður seldi fóru til 209 fjárfesta en samtals bárust hins vegar 430 tilboðspantanir á því verði sem var ákvarðað í útboðinu – 117 krónur á hlut – en stór hluti þeirra hafði einnig tekið þátt í frumútboði Íslandsbanka um mitt síðasta ár þegar hann var skráður á markað.
Fimmtán fjárfestar, sem ætla má að séu að stórum hluta lífeyrissjóðir, keyptu fyrir meira en einn milljarð króna en algengast var að úthlutun til fjárfesta hafi numið annaðhvort á bilinu 100 til 200 milljónum eða 10 til 30 milljónum króna.
Tilboðsgjafar sem voru metnir skammtímafjárfestar, eins og meðal annars svonefndir spákaupmenn og fjárfestingarsjóðir sem notast við mikla skuldsetningu í kaupum sínum á hlutabréfamarkaði, þurftu að sæta umtalsvert meiri skerðingum en aðrir fjárfestar og fengu að jafnaði úthlutað til sínum bréfum sem námu um 15 prósentum af þeirri fjárhæð sem þeir óskuðu eftir.
Salan í Íslandsbanka fór fram með tilboðsfyrirkomulagi, algengasta aðferðin þegar selja þarf jafn stóran hlut í skráðu félagi, þar sem söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði, með svipuðu fyrirkomulagi og var gert í frumútboði Íslandsbanka. Á grundvelli þessara upplýsinga er svo tekin ákvörðun um hvort að ráðist verði í útboð og hversu stór hlutur verði seldur.
Fram kemur í kynningu Bankasýslunnar að ákveðið hafi verið að morgni mánudagsins 21. mars að hefjast handa við markaðsþreifingar á meðal stórra innlendra fjárfesta, þremur dögum eftir að fjármálaráðherra hafði samþykkt tillögu Bankasýslunnar um að halda áfram með söluferlið. Í kjölfar þeirra samtala hófust einnig markaðsþreifingar við erlenda fjárfesta og fengnir voru fleiri söluráðgjafar að borðinu en í sambærilegum útboðum með tilboðsfyrirkomulagi, vegna áherslu á dreift eignarhald og að afla markaðsverðs fyrir hlutinn.
Verðið sem ríkissjóður seldi hlut sinn á, sem jafngilti genginu 1,15 miðað við bókfært eigið fé bankans að því er fram kemur í kynningunni, var rétt rúmlega 4 prósentum lægra en markaðsgengið – 122 krónur á hlut – var þegar söluferlið fór af stað við lokun markaða í gær. Sá „afsláttur“ var í takt við það sem búast mátti við þegar jafn stór hlutur er seldur með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi á markaði.
Í samanburði var hlutafjármargfaldari Arion banka á sama tíma 1,34 miðað við eigið fé og 0,68 á hlutabréfum banka í Euro Stoxx 600 vísitölunni. Að teknu tilliti til 11,9 milljarða króna arðgreiðslu Íslandsbanka – 5,95 krónur á hvern hlut – þá nam útboðsgengið 122,95 krónum á hlut og var einungis 4,7 prósentum lægra en hæsta verð frá skráningu bankans í júní í fyrra.
Með þessu síðasta útboði, frumútboðinu á liðnu ári og arðstekjum frá árinu 2016 hefur ríkissjóður endurheimt rúmlega 180 milljarða af stöðugleikaframlagi Glitnis, sem samanstóð meðal annars af 95 prósenta eignarhlut hlut félagsins í Íslandsbanka en fyrir átti ríkið 5 prósenta hlut. Eftirstandandi 42,5 prósenta eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka er nú um 108 milljarða króna virði.
Evrópska fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar í ferlinu, hefur bent á að í þeim útboðum sem hafa farið fram hjá skráðum evrópskum félögum á þessu ári með sambærilegu fyrirkomulagi hafi afslátturinn verið að meðaltali um 6,4 prósent. Eftir innrás Rússa í Úkraínu, sem hefur aukið óvissu og veltu á mörkuðum, hefur afslátturinn í slíkum útboðum verið enn meiri, eða um 8,4 prósent að jafnaði.
Bankasýslan nefnir að í aðdraganda útboðsins hafi sú hætta verið fyrir hendi að upplýsingar um áformin myndu „leka“ út á markað áður en ákvörðun um að ráðast í sölu og þannig „eyðileggja útboðsáform.“ Af þeim sökum hafi einungis átt sér stað markaðsþreifingar við stærri innlenda fjárfesta. „Ef markaðsþreifingar hefðu náð til fleiri aðila hefði verið aukin hætta á leka auk þess sem seljanleiki hlutabréfa á markaði hefði mögulega raskast ef svo margir og stórir þátttakendur á markaði hefðu samþykkt að eiga ekki viðskipti með hlutabréfin á meðan markaðsþreifingar standa yfir,“ segir í kynningunni.
Bankasýslan bendir á að einungis fjögur útboð með tilboðsfyrirkomulagi að lágmarksstærð 100 milljón evra áttu sér stað í Evrópu frá 8. febrúar, fram að útboði Íslandsbanka, en fimm fylgdu í kjölfarið á næstu tveimur dögum. Þá segir stofnunin að verðþróun á hlutum í Íslandsbanka á eftirmarkaði sem og hlutum í öðrum félögum á aðallista Kauphallarinnar gefi einnig til kynna að útboðið hefði ekki ofgert markaðnum, til dæmis með tilliti til endanlegrar útboðsstærðar. Þetta æti að auðvelda frekari sölu á hlutum í bankanum á markaði, segir Bankasýslan.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka stendur nú í 127,2 krónum á hlut og hefur hækkað um 8,5 prósent frá útboðinu.
Bankasýslan hefur núna skuldbundið sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum 90 daga eftir að viðskiptin ganga í gegn í næstu viku, nema með samþykki umsjónaraðila útboðsins eða í tengslum við hvers konar endurkaup Íslandsbanka á eigin hlutum á tímabilinu.