Neytendur

Ódýrustu páskaeggin í Bónus

Bjarki Sigurðsson skrifar
Páskaegg í Bónus Holtagörðum.
Páskaegg í Bónus Holtagörðum. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt verðkönnun Alþýðusambands Íslands sem framkvæmd var þriðjudaginn 29. mars er Bónus að jafnaði með lægsta verðið á matvöru. Dýrast er að versla í Iceland en þar er meðalverð 38% yfir lægsta verði.

Yfir 60% munur var á hæsta og lægsta verði á 28 vörum af 141 í könnuninni. Mikill munur er á verði á frosnum vörum en minni á páskaeggjum. Algengast er að 10-20% munur sé á verði eggjanna.

Oftast ódýrast í Bónus

Í 27 tilfellum af 32 var Bónus með lægsta verðið á páskaeggjum og Iceland í 24 tilfellum með það hæsta. Meiri hlutfallslegur verðmunur er á minni páskaeggjum en þeim stærri. 72% munur er á verði Bónus og Iceland á Góu páskaeggi nr. 3.

Krónan var í mörgum tilfellum nálægt Bónus í verði á páskaeggjunum og munaði oft einungis einni krónu á verðinu.

Skoða má niðurstöður könnunarinnar hér fyrir neðan en hægt er að velja milli vöruflokka fyrir ofan töfluna.

Mikill munur á frystivöru

Mikill verðmunur var á frosinni vöru en þar má nefna 137% verðmun á frosnum bláberjum, 61% verðmun á Sun Lolly og 50% verðmun á Dalooon vorrúllum. Bláberin kosta 796 kr/kg í Bónus en 1.889 kr/kg hjá Heimkaup. Þá var 39% munur á frosnu ókrydduðu lambalæri og 63% munur á kílóverði af frosnu súpukjöti.

Nánar má lesa um könnunina á vef ASÍ.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Selfossi, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Vesturbergi, Hagkaup Eiðistorgi, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×