Handbolti

Danir drottna yfir handboltaheiminum

Sindri Sverrisson skrifar
Niklas Landin og Sandra Toft voru best í heimi í handbolta á árinu 2021.
Niklas Landin og Sandra Toft voru best í heimi í handbolta á árinu 2021. Getty

Danir eiga besta handboltafólkið og þjálfarana samkvæmt kjöri alþjóða handknattleikssambandsins vegna ársins 2021.

Markverðirnir Niklas Landin og Sandra Toft voru valin bestu leikmenn heims á árinu 2021, og þjálfararnir Nikolaj Jacobsen og Jesper Jensen bestu þjálfararnir.

Fimm voru tilnefnd í hverjum flokki og það var svo í höndum handboltaaðdáenda um allan heim að kjósa þau bestu.

Landin ver mark danska landsliðsins og Kiel í Þýskalandi. Hann er fyrsti handboltakarlinn til að vera valinn bestur tvö ár í röð en í fyrra var hann í lykilhlutverki þegar Danmörk varð heimsmeistari og vann silfur á Ólympíuleikunum, og valinn besti markvörður Meistaradeildar Evrópu.

Sandra Toft er fyrsta danska handboltakonan til að vera valin best síðan Anja Anderson var valin árið 1997. Toft átti stóran þátt í að danska kvennalandsliðið næði í sín fyrstu verðlaun í átta ár, með því að vinna brons á HM þar sem hún varði 43% skota sem hún fékk á sig. Toft vann líka frönsku deildina með Brest Bretagne og komst með liðinu í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Nikolaj Jacobsen stýrði eins og fyrr segir Dönum til heimsmeistaratitils í handbolta karla og silfurverðlauna á Ólympíuleikunum.

Jesper Jensen stýrði kvennaliðinu til bronsverðlaunanna á HM en stýrði einnig liði Esbjerg í Danmörku sem fór ósigrað í gegnum fyrri hluta Meistaradeildar Evrópu fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×