Skoðun

Hver á að gæta varðanna?

Indriði Stefánsson skrifar

Á Íslandi sinnir lögreglan því hlutverki að tryggja lög og reglu. Til að hún geti sinnt þessu hlutverki fær hún miklar heimildir meðal annars til valdbeitingar, rannsóknar mála og svo mætti lengi telja. Fyrir vikið er mikilvægt að um störf lögreglunnar ríki bæði traust og sátt og hún ræki störf sín af ábyrgð og kostgæfni.

Áhrif nýrra kosningalaga

Því voru það mikil vonbrigði og nokkuð áfall þegar lögreglan felldi niður kæru Karls Gauta Hjaltasonar gegn Yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis sem varðaði meðal annars brot á meðferð kjörgagna. Þetta var gert eftir að lögreglan hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að brot hafi verið framin og boðið meðlimum kjörstjórnar að greiða sekt. Ekki vegna vafa um að brotið hafi verið framið heldur vegna þess að í millitíðinni hafi tekið gildi ný lög.

Skert traust almennings

Það er erfitt að skilja hvernig lögreglan kemst að þessari niðurstöðu. Kæran varðaði kosningar til Alþingis og nauðsynlegt að tryggja að rétt hafi verið staðið að talningu. Þó ný lög hafi tekið gildi er skýrt að þau lög giltu ekki um síðustu kosningar. Enn fremur heldur lögreglan því fram að í nýju lögunum sé ekki jafn skýrt að innsigla eigi kjörgögn að talningu lokinni. Þetta er furðuleg niðurstaða því ætlunin er að ráðherra geri því grein í reglugerð. Sú reglugerð hefur ekki verið sett og ef ætlun lögreglustjórans væri að miða við nýju lögin, þyrfti niðurfellingin að bíða þess að reglugerðin hafi verið sett. Ljóst er að í báðum lögunum er gert ráð fyrir að það varði í það minnsta sektum að haga framkvæmd vísvitandi gegn lögunum. Þess fyrir utan er ljóst að þegar kæra Karls Gauta er lögð fram giltu fyrri lögin ennþá.

Heilindi kosninga

Framkvæmd kosninga þarf að vera hafin yfir vafa og sé leitað til lögreglu er brýnt að rétt sé brugðist við. Tiltrú almennings á kosningum er verulega skert í kjölfar þeirra atburða sem áttu sér stað að lokinni talningu í Norðvestur. Nú er viðbúið að sú tiltrú skerðist enn frekar sem og traust og sátt um störf lögreglunnar. Það er óþægilegt að upplifa að lögreglan bregðist í þessu máli og að embættismenn við kosningar sleppi með að hafa vísvitandi og upplýst farið gegn kosningalögum.

Yfirheyrslur yfir blaðamönnum

Nýlega rannsakaði annað lögregluembætti þátt blaðamanna í broti sem átti að hafa varðað friðhelgi einkalífsins, á grundvelli ákvæðis sem skýrt er að gildi ekki um blaðamenn. Það var gert án þess að nein raunveruleg merki væru um að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífsins. Hér var því ekki sama virðing fyrir málefninu og, þrátt fyrir að engar líkur væru á sakfellingu, fengu blaðamenn réttarstöðu sakbornings. Sú framkvæmd var úrskurðuð ólögleg eins og er vel þekkt og bíður nú niðurstöðu Landsréttar án þess að nokkur merki séu um að einhver innan stjórnkerfisins ætli að axla ábyrgð á framkvæmdinni.

Ósamræmi milli embætta

Hér er hrópandi ósamræmi í meðferð lögreglunnar á sakborningum. Annars vegar embættismenn við kosningar og hins vegar blaðamenn sem fjölluðu um alvarleg brot stórfyrirtækis. Í ljósi þessa ósamræmis er furðulegt til þess að hugsa að nú er í samráðsgátt frumvarp um breytingu á lögreglulögum þar sem lögreglu eru gefnar heimildir til þess að að ganga á grundvallarréttindi borgarana um friðhelgi einkalífs, á matskenndum forsendum einum, sem vill svo til að er sama brot og blaðamönnunum var gefið að sök að hafa framið og auknar heimildir til valdbeitingar.

Áður en við förum í að veita lögreglu auknar heimildir til valdbeitingar og að ganga á grundvallarmannréttindi borgarana skulum við byrja á að endurreisa traust almennings á lögreglunni. Á meðan við höfum slæm dæmi um það að lögreglan hundsi skýr lagafyrirmæli ætti ekki að koma til greina að leyfa henni að á grundvelli matskenndra forsenda að brjóta á friðhelgi einkalífs almennings. Við verðum að tryggja það að öll séu jöfn fyrir lögum, hvort sem um ræðir blaða- eða embættismenn.

Höfundur er varaþingmaður Pírata og á lista Pírata í kosningum til bæjarstjórnar Kópavogs.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×