Fótbolti

Leicester í átta liða úrslit þrátt fyrir tap | Íslendingalið FCK úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leicester er á leið í átta liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu.
Leicester er á leið í átta liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu. Plumb Images/Leicester City FC via Getty Images

Enska úrvalsdeildarliðið Leicester City tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu þrátt fyrir 2-1 tap gegn Rennes í kvöld. Leicester vann fyrri leik liðanna 2-0. Þá féll Íslendingalið FCK úr leik eftir 4-0 tap gegn PSV Eindhoven.

Heimamenn í Rennes komust yfir strax á áttundu mínútu gegn Leicester með marki frá Benjamin Bourigeaud, en það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.

Wesley Fofana jafnaði metin fyrir Leicester snemma í síðari hálfleik, en varamaðurinn Flavien Tait náði forystunni á ný fyrir Rennes þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Það reyndist seinasta mark leiksins og niðurstaðan því 2-1 sigur Rennes. Eins og áður segir vann Leicester fyrri leik liðanna 2-0 og þeir eru því á leið í átta liða úrslit en Rennes situr eftir með sárt ennið.

LEICESTER TWEET

Á sama tíma þurfti Íslendingalið FC Kaupmannahafnar að sætta sig við 4-0 tap gegn PSV Eindhoven. Liðin gerðu 4-4 jafntefli í fyrri leiknum og PSV vann því samanlagt 8-4.

Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði Kaupmannahafnarliðsins og Andri Fannar Baldursson kom inn af varamannabekknum þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Þá er enn á gangi leikur AZ Alkmaar og Bodø/Glimt þar sem Alfons Sampsted leikur með norska liðinu Bodø/Glimt.

Alfons og félagar unnu fyrri leikinn 2-1, en AZ Alkmaar hafði betur eftir 90 mínútur í kvöld, 2-1. Því þurfti að grípa til framlengingar sem nú stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×