Tímabilið í Formúlu 1 hefst um helgina, en keppt verður í Barein næstkomandi sunnudag. Æfingar hefjast á morgun og tímatakan fer fram á laugardaginn.
Sebastian Vettel getur ekki verið við stýrið á Aston Martin bifreið sinni eftir að ökuþórinn greindist með kórónuveiruna í dag. Nico Hulkenberg mun aka í stað Vettels.
Hinn 34 ára Hulkenberg hefur ekki átt fast sæti í Formúlu 1 síðan árið 2019, en hefur hlaupið í skarðið fyrir aðra. Hann keppti í þrígang árið 2020 þegar hann hljóp í skarðið fyrir þá Lance Stroll og Sergio Perez eftir að þeir greindust með kórónuveiruna.
Sebastian Vettel er sem áður segir fjórfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og því mikill missir fyrir Aston Martin liðið. Vettel varð heimsmeistari fjögur ár í röð árin 2010-2013. Þá er hann einnig þriðji sigursælasti ökuþór sögunnar í Formúlu 1, en Vettel hefur unnið 53 keppnir á ferlinum. Aðeins Michael Schumacher og Lewis Hamilton hafa unnið fleiri.