Viðskipti innlent

Hala inn milljónum: Auglýsingin sem smeygir sér fram hjá nýjum lögum

Snorri Másson skrifar
Svens var stofnað árið 2020 og verslanirnar eru þegar orðnar níu á höfuðborgarsvæðinu.
Svens var stofnað árið 2020 og verslanirnar eru þegar orðnar níu á höfuðborgarsvæðinu. Vísir

Nýtt frumvarp Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra tekur fyrir auglýsingar á nikótínvörum - en ekki á nikótínverslunum. Og þar sem er vilji er vegur.

Í Söngvakeppni Sjónvarpsins mátti sjá auglýsingar frá nikótínvöruversluninni Svens, þar sem ekkert var þó minnst á nikótínvörur. Bara vörumerki verslunarinnar sjálfrar. Enda þótt nýtt frumvarp gangi í gegn, verða slíkar almennar auglýsingar áfram leyfilegar.

Nýverið var greint frá efni frumvarpsins, sem ætlað er að draga úr notkun ungmenna á nikótínvörum. Ávaxta- og nammibragð verður bannað. Það eru Ungir sjálfstæðismenn óánægðir með og hafa gefið til kynna bragðleysi flokksins sem knýr nú á um bragðleysi púðanna, Framsóknarflokksins.

Um leið á að banna auglýsingar nikótínvara.

„Þetta er skrýtið. Svona eru reglurnar, virðist vera, það má auglýsa útsölustaðinn og vörumerkið, en ekki vöruna sjálfa,“ segir Guðmundur H. Pálsson, formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa, í samtali við fréttastofu.

Auglýsendur telja bann við auglýsingum vörunnar ekki koma í veg fyrir að hún komi neytendum fyrir sjónir, enda flæðir allt í auglýsingum frá framleiðendum nikótínpúða á samfélagsmiðlum og í erlendum miðlum.

Svens var stofnað árið 2020 og verslanirnar eru þegar orðnar níu á höfuðborgarsvæðinu.Vísir

„Þá geta þeir auglýst sínar vörur með ýmsum leiðum en íslenskir fjölmiðlar geta ekki birt þessar vörur í sínum miðlum - og þar af leiðandi hallar kannski bara á íslenska fjölmiðla,“ segir Guðmundur.

Ef frumvarpið er mikið högg fyrir Svens ætti fyrirtækið að eiga sjóði til að ráða við það - vöxturinn hefur verið ævintýralegur á tveimur árum og það sér ekki fyrir endann á honum. 32% Íslendinga átján ára og eldri nota nikótínvörur án tóbaks.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×