Innlent

Rúta með 40 farþegum lenti utan vegar í Þrengslunum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Óveðrið sem geisar á landinu setur færð í talsvert uppnám.
Óveðrið sem geisar á landinu setur færð í talsvert uppnám. vísir/vilhelm

Björgunarsveitir voru kallaðar út skömmu fyrir hádegi vegna rútu sem hafnaði utan vegar í Þrengslunum en um borð voru 40 farþegar sem þurfti að aðstoða. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi slysavarnafélagsins Landsbjargar segir auk þess að björgunarsveitarfólk hafi þurft að aðstoða ökumenn fleiri ökutækja á svæðinu.

Björgunarsveitir voru einnig kallaðar út til aðstoðar á Hellisheiði fyrir hádegi en flutningabíll þveraði veginn sem gerði það að verkum að röð myndaðist. Aðstoða þurfti sjúkrabíl við að komast leiðar sinnar.

„Það hefur verið svolítið bras þarna á þessum stöðum og við höfum séð svolítið af verkefnum núna í vetur í Þrengslunum og Hellisheiði.“

Davíð segir að búið sé að leysa úr flestum verkefnunum en skilja þurfti nokkra bíla eftir á Hellisheiði vegna óveðursins.

„En núna síðast þegar ég heyrði í þeim þá voru þeir að vinna í þessari rútu sem var komin út af veginum en aðrir bílar voru orðnir lausir.“

Íbúar á landinu sunnan og vestanverðu búa að því að fannfergi hefur minnkað síðustu daga og þurfa því ekki að hafa eins miklar áhyggjur af vatnstjóni þó er alltaf góð regla að gæta að því að vatn hafi greiða leið að niðurföllum. Davíð sagði að engar tilkynningar um vatnstjón hefðu borist björgunarsveitum en björgunarsveitir voru kallaðar út vegna foktjóns á Suðurnesjum.

„Þak fauk af byggingu og voru björgunarsveitir kallaðar út í það verkefni rétt fyrir hádegi.“


Tengdar fréttir

Vara við aukinni hættu á krapa­flóðum

Veðurstofan varar við aukinni hættu á krapaflóðum á sunnanverðu landinu á morgun vegna óveðurs. Vitað er til þess að tvö slík hafi fallið á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×