Innlent

Aaron Ísak á­kærður fyrir kyn­ferðis­brot gegn þremur ungum drengjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Aaron Ísak segist aldrei myndu hafa brotið á börnum vís vitandi.
Aaron Ísak segist aldrei myndu hafa brotið á börnum vís vitandi. Vísir

Söngvarinn Aaron Ísak Berry segist hvorki siðblindur né með barnagirnd og aldrei myndu gera barni mein vís vitandi. Réttarhöld yfir Aaroni standa nú yfir þar sem hann er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum drengjum. Tveir þeirra voru tólf ára gamlir þegar meint brot áttu sér stað.

Aaron Ísak er fæddur árið 1998 og vakti athygli landsmanna þegar hann tók þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2020 undir listamannsnafninu Kid Isak. Árið áður hafði hann sigrað Söngvakeppni framhaldsskólanna þegar hann flutti lagið Love of My Life með Queen. 

DV fjallaði um málið gegn Aaroni Ísaki í dag en þar kemur fram að kveða hafi átt upp dóm í máli hans í vikunni. Aðalmeðferð í máli hans hafi farið fram í lokuðu þinghaldi í Héraðsdómi Reykjavíkur dagana 2. og 3. febrúar síðastliðinn, en almenn regla er að dóma skuli kveða upp innan mánaðar frá lokum aðalmeðferðar. DV hefur það eftir heimildum að dómsuppsaga hafi frestast þar sem kalla hafi þurft til tvö sérfræðivitni að nýju fyrir dóminn í gær. 

Sagður hafa sent grófar kynferðislegar myndir og myndbönd

Aaron er sakaður um ítrekuð kynferðisbrot gegn þremur drengjum frá hausti 2019 til vorsins 2020. Tveir drengjanna voru tólf ára gamlir þegar meint brot áttu sér stað en aldur þess þriðja er ókunnur. 

Fram kemur í frétt DV að Aaron Ísak sé meðal annars sakaður um að hafa skrifast á við drengina með grófum kynferðislegum hætti, þar sem hann hafi meðal annars lýst kynferðisathöfnum. Þá er hann sakaður um að hafa sent drengjunum myndir af getnaðarlim sínum og grófar kynferðislegar myndir og myndbönd. 

„Ég mun tala um þetta ítarlega þegar málinu lýkur. Ég er ekki siðblindur né með barnagirnd og myndi aldrei gera barni mein vís vitandi. Ég tek ábyrgð á því sem ég hef gert rangt, en ef ákæran væri í heil dsinni sönn ætti ég mjög erfitt með að lifa með sjálfum mér ÉG biðst afsökunar til allra sem ég hef sært á nokkurn hátt,“ skrifar Aaron Ísak í færslu sem hann birti á Facebook í kvöld. 

Sakaður um að hafa mætt í skólann til drengjanna og sakað þá um lygar

Aaron er auk kynferðislegu skeytasendinganna ákærður fyrir að hafa reynt að hafa kynferðismök við drengina tvo sem voru tólf ára á þeim tíma. Hann hafi kysst annan þeirra á munninn og drengurinn brugðist við því með því að  ýta honum af sér. Þá er hann sagður hafa káfað á drengnum utan klæða, meðal annars í klofi. Þá hafi hann reynt að lokka drengina með sér niður í bílakjallara. 

Auk þess hafi Aaron átt í rafrænum samskiptum við þriðja drenginn og hafi í þeim meðal annars sent honum myndir af nöktum rassi sínum og myndskeið af tveimur karlmönnum í kynmökum. Þar að auki hafi Aaron haft barnaníðsefni í fórum sínum, tíu myndskeið og 74 ljósmyndir. 

Fram kemur í frétt DV að samskipti Aarons við drengina hafi hafist í kjölfar þess að hann steig sín fyrstu skref sem söngvari. Drengirnir þrír hafi allir sent honum skilaboð á Instagram og sagst hrifnir af söng hans. Í kjölfarið hafi kynferðislegar skilaboðasendingar Aarons til drengjanna hafist. Þá hafi Aaron, í kjölfar lögregluyfirheyrslna vegna málsins, mætt í grunnskóla drengjanna og sakað þá um lygar. Í kjölfarið hafi móðir eins drengjanna sótt um nálgunarbann gegn Aaroni sem hafi verið úrskurðað í kjölfarið.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×