Handbolti

Óla-áhrifin strax byrjuð að segja til sín: Þrír frá Erlangen í liði umferðarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlangen vann fyrsta leikinn eftir komu Ólafs Stefánssonar.
Erlangen vann fyrsta leikinn eftir komu Ólafs Stefánssonar.

Ólafur Stefánsson var í fyrsta sinn á hliðarlínunni hjá Erlangen þegar liðið vann N-Lübbecke, 29-22, í þýsku úrvalsdeildinni í gær.

Ólafur var ráðinn aðstoðarþjálfari Erlangen út tímabilið í síðustu viku. Hann hélt utan á föstudaginn og var mættur á hliðarlínuna gegn N-Lübbecke í gær.

Innkoma Ólafs virtist hafa góð áhrif á leikmenn Erlangen sem unnu öruggan sjö marka sigur. Erlangen er í 11. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með sautján stig.

Þrír leikmenn Erlangen voru valdir í lið umferðarinnar í þýsku úrvalsdeildinni fyrir frammistöðu sína gegn N-Lübbecke; hornamennirnir Hampus Olsson og Christopher Bissel og línumaðurinn Sebastian Firnhaber. Olsson skoraði níu mörk, Bissel sjö og Firnhaber tvö. 

Einn Íslendingur er í liði umferðarinnar, Gísli Þorgeir Kristjánsson. Hann skoraði átta mörk þegar topplið Magdeburg vann stórsigur á Bergischer, 38-25. Auk Gísla, Olssons, Bissels og Firnhabers eru Niclas Kirkelökke (Rhein-Neckar Löwen), Kevin Möller (Flensburg) og Miro Schluroff (Minden) í liði umferðarinnar.

Ólafur aðstoðar Raúl Alonso, þjálfara Erlangen, næstu fjóra mánuðina. Ekki er ólíklegt að hann taki svo við liðinu eftir tímabilið.

Næsti leikur Erlangen er gegn Hamburg á útivelli á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×