Fótbolti

Treyjur Aftureldingar seldar um allan heim

Sindri Sverrisson skrifar
Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, lék með yngri flokkum Aftureldingar og styður vel við félagið.
Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, lék með yngri flokkum Aftureldingar og styður vel við félagið. Twitter/@officialkaleo

Afturelding gæti verið að eignast mun fleiri stuðningsmenn, um allan heim, því treyjur knattspyrnuliðs félagsins verða til sölu á tónleikum hljómsveitarinnar Kaleo í ár.

Hljómsveitin fræga er líkt og Afturelding úr Mosfellsbæ og gerðist í fyrra styrktaraðili knattspyrnudeildar félagsins. Þrír meðlimir Kaleo léku með yngri flokkum Aftureldingar á sínum tíma.

Afturelding leikur því með merki Kaleo framan á búningum sínum í Bestu deild kvenna og Lengjudeild karla í sumar og nú eru treyjurnar farnar að seljast erlendis, á tónleikaröð Kaleo sem nú er hafinn í Bandaríkjunum.

Samkvæmt tilkynningu frá Kaleo rennur allur ágóði af sölu treyjanna til Aftureldingar, „til stuðnings félaginu sem við elskum“. Nokkrar áritaðar treyjur verða í boði á hverjum tónleikum.

Ljóst er að uppátækið fellur vel í kramið hjá aðdáendum Kaleo sem á samfélagsmiðlum lýsa yfir vilja til að festa kaup á Aftureldingar-treyjum.

Hljómsveitin er nú stödd í Kaliforníu og heldur tónleika í San Diego í kvöld. Fram undan er löng röð tónleika í Bandaríkjunum og Kanada áður en sveitin færir sig svo yfir til Evrópu í sumar. Samkvæmt áætlun lýkur tónleikaröðinni í Rússlandi og Úkraínu í október en sú áætlun var gerð áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst.


Tengdar fréttir

KALEO í tónleikaferð um heiminn

KALEO er ein vinsælasta hljómsveit sem Ísland hefur af sér alið en í febrúar 2022 leggur svetin af stað í heljarinnar tónleikaferð um heiminn.  

Hljóm­sveitin KALEO framan á treyjum Aftur­eldingar

Lið Aftureldingar í meistaraflokki karla í knattspyrnu mun bera merki hljómsveitarinnar KALEO framan á treyjum sínum næstu tvö árin. Afturelding gaf út fréttatilkynningu þess efnis í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×