Frítíminn

Dagur í lífi Sigþrúðar: Morgunhani sem vill að fjölskyldan borði saman

Ritstjórn Innherja skrifar
Sigþrúður Ármann er kölluð Sissí af vinum og vandamönnum.
Sigþrúður Ármann er kölluð Sissí af vinum og vandamönnum.

Sigþrúður Ármann er atvinnurekandi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún vaknar eldsnemma til að hreyfa sig og á það til að sofna í leikhúsum og saumaklúbbum, enda kvöldsvæf með eindæmum. Hún segir enga tvo daga eins hjá sér og vill helst að aðrir eldi kvöldmatinn, því eldamennska er ekki hennar sterkasta hlið.

06:00 Þennan dag byrjaði ég að fara út að skokka við Vífilsstaðavatn, útbúin höfuðljósi og broddum. Ég byrja daginn oftast á að hreyfa mig og fer ýmist í jóga eða út í náttúruna, þá helst í Heiðmörk. Auðvitað er stundum erfitt að vakna svona snemma, eins og raunin var þennan morgunin, en þá hugsa ég frekar um hvað ég er þakklát fyrir að hafa heilsu til að geta hreyft mig heldur en að blóta veðrinu eða klukkunni. 

Það er eitthvað heillandi við ólíkt veðurfar og má segja að Heiðmörkin bjóði manni alltaf upp í dans, sama hvernig viðrar. Ég hef sett mér það markmið að taka 300 æfingar á ári því það gefur mér mikla orku að byrja daginn á því. Ég nýti tímann og hugsa til þeirra sem ekki hafa tök á að hreyfa sig til dæmis vegna veikinda og sendi þeim orku inn í daginn.

Sissí með Sæþóri, hundinum sínum, í Búrfellsgjá að morgni dags.

07:15 Eftir að hafa hreyft mig kem ég heim og þá hefst mikið fjör við að koma krökkunum á fætur, gefa þeim að borða og koma þeim í skólann. Við hjónin eigum þrjú börn sem eru 6 ára, 11 ára og 16 ára og eru þau öll í sitthvorum skólanum. Þetta er því oft eins og á járnbrautastöð og alltaf gott þegar þau eru öll komin á sinn stað. Eftir að því er lokið tek ég mig til, fer yfir blöðin og held af stað til vinnu.

9:30 Það má segja að engir tveir dagar séu eins hjá mér. Ég rek eigið fyrirtæki og þennan dag var ég komin á skrifstofuna um klukkan 9:30. Þar sinnti ég fjölbreyttum málum og lagði drög að áhugaverðum viðburði fyrir Exedra sem er öflugur hópur kvenna.

Þetta er því oft eins og á járnbrautastöð og alltaf gott þegar þau eru öll komin á sinn stað. Eftir að því er lokið tek ég mig til, fer yfir blöðin og held af stað til vinnu.

12:30 Mér finnst mjög gott að nýta hádegin fyrir fundi og þennan dag hitti ég góða konu í hádegisverði.

Sigþrúður á skíðum með skemmtilegum vinkonum og auðvitað er harðfiskurinn aldrei langt undan. 

14:00 Stjórnarfundur hjá Von harðfiskverkun. Ég sit í nokkrum ólíkum stjórnum og finnst það mjög gefandi. Ég er stjórnarformaður og einn eigenda hjá Von harðfiskverkun. Matvælageirinn er spennandi. Það skiptir okkur Íslendinga miklu máli að vera með sjálfbæra matvælaframleiðslu. Við höfum sérstöðu á heimsvísu með grænni orku, hreinleika og gæðum og getum við aukið útflutning okkar mikið.

Ég sit einnig í stjórn Verðbréfamiðstöðvar Íslands. Það er allt annar geiri og líka mjög áhugaverður. Við erum að vinna í því að koma á samkeppni á markaði sem í dag ríkir algjör einokun. Ég aðhyllist mjög að samkeppni ríki á sem flestum sviðum atvinnulífsins. Þá er ég með annan fótinn í pólítíkinni, sit í stjórn Sjálfstæðisfélags Garðabæjar og er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Matvælageirinn er spennandi. Það skiptir okkur Íslendinga miklu máli að vera með sjálfbæra matvælaframleiðslu. Við höfum sérstöðu á heimsvísu með grænni orku, hreinleika og gæðum og getum við aukið útflutning okkar mikið.

16:00 Þennan dag er fundur hjá fjölskylduráði Garðabæjar sem ég hef setið í frá árinu 2014. Það er afar lærdómsríkt að fást við öll þau mikilvægu málefni sem þar eru á borðum, barnaverndarmál, fjárhagsaðstoð, málefni eldri borgara og fatlaðs fólks. Ég fyllist auðmýkt í hvert sinn sem ráðið fundar.

Vinkonurnar Sissí og Marín í göngu í Þórsmörk.

18:00 Held heim á leið með viðkomu í hinum æsispennandi rússíbana ,,skutla og sækja" sem nær ákveðnu hámarki á þessum tíma dags. Því næst er að huga að kvöldmatnum. Eldamennska er ekki mín sterkasta hlið og finnst mér æðislegt þegar aðrir í fjölskyldunni sjá um að elda. Þegar ég var stelpa var alltaf lögð mikil áhersla á að fjölskyldan borðaði saman kvöldmat og legg ég sjálf upp úr því að fjölskyldan hittist við kvöldmatarborðið og fari yfir daginn og veginn. Þennan daginn er lasagne í matinn, sem krökkunum finnst mjög gott. 

Sjálf myndi ég vilja hafa fisk og grillað grænmeti sem oftast en næ sjaldnast meirihluta atkvæða hjá fjölskyldunni. Þess vegna fæ ég mér yfirleitt fisk í hádeginu fari ég út þá.

Í sjósundi með Katrínu Júlíusdóttur vinkonu sinni.
Eldamennska er ekki mín sterkasta hlið og finnst mér æðislegt þegar aðrir í fjölskyldunni sjá um að elda. Þegar ég var stelpa var alltaf lögð mikil áhersla á að fjölskyldan borðaði saman kvöldmat og legg ég sjálf upp úr því að fjölskyldan hittist við kvöldmatarborðið.

21:00 Þegar sú yngsta er komin í háttinn og ákveðin ró farin að færast yfir heimilið langar mig að setjast niður og lesa góða bók. Ég er svakalega kvöldsvæf og er því oftast sofnuð um leið og ég sest niður til að slaka á. Vinkonur mínar gera grín að mér að ég sofni í saumaklúbbum, í bíóhúsum og jafnvel í leikhúsum! Það fylgir því jú óneitanlega að þurfa að fara snemma að sofa þegar maður vaknar eldsnemma daginn eftir til að fara út að hreyfa sig.






×