Innlent

Snjóskóflur, blásarar og sköfur seldust upp í illviðristíð

Árni Sæberg skrifar
Ekki eru allir jafnheppnir og þessi að hafa aðgang að góðri snjóskóflu.
Ekki eru allir jafnheppnir og þessi að hafa aðgang að góðri snjóskóflu. Vísir/Vilhelm

Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni hversu illa viðraði á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Metfjöldi veðurviðvarana var gefinn út og snjó kyngdi niður. Illviðristíðin olli því að allur lager Húsasmiðjunnar af snjóskóflum, snjóblásurum og snjósköfum seldist upp í febrúar.

Húsasmiðjan fór ekki varhluta af slæmu veðurfari á höfuðborgarsvæðinu í febrúar frekar en aðrir. Þó er reynsla fyrirtækisins öllu jákvæðari en flestra.

Sala á snjóskóflum, snjóblásurum og snjósköfum jókst nefnilega um 140 prósent miðað við febrúar í fyrra. Lagerinn seldist einfaldlega upp. 

,,Snjóskóflur kláruðust í vöruhúsinu okkar og flestar gerðir seldust upp í verslunum okkar um land allt. Við höfum ekki séð svona mikla sölu á snjóskóflum í mörg ár, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem salan margfaldaðist milli ára. Einnig höfum við fundið fyrir mikilli aukningu á sölu á salti, sandi, mannbroddum og jafnvel garðslöngum, því fólk er að bræða snjó og klaka með heitu vatni fyrir utan hjá sér,“ segir Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar.

Unnið er að því að panta fleiri vörur og fylla á lagerinn en Magnús býst þó við að salan detti hratt niður með batnandi tíð. Hvort Húsasmiðjan fagni henni jafnvel og aðrir skal ósagt látið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×