Körfubolti

Baldur Þór: Við höfum trú á þessu

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var ánægður með sigur sinna manna í kvöld.
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var ánægður með sigur sinna manna í kvöld. vísir/bára

Tindastóll vann mikilvægan heimasigur á Stjörnunni. Lokatölur 94-88 og Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari liðsins, segir að hann og leikmenn liðsins hafi trú á verkefninu sem framundan er.

„Þessi var frábær og gaman að spila vel í 40 mínútur á sóknarvelli og svo lokuðum við fyrir þá hérna í fjórða með góðum varnarleik,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls eftir leik.

„Við vitum alveg að við getum þetta, við getum unnið öll þessi lið í deildinni. Sérstaklega á heimavelli þegar að fólkið er á bak við okkur og það er stuðningur eins og er búinn að vera hérna í seinustu tveimur leikjum,“ sagði Baldur.

„Við höfum trú á þessu og við köllum eftir fólkinu sem hefur trú á þessu, sem er greinilega að mæta hérna og hafa gaman með okkur í þessu,“ sagði Baldur.

Stjarnan náði smá forskoti í þriðja leikhluta og komust nokkrum stigum yfir, Baldur var ánægður með viðbrögð sinna manna.

„Þeir koma vel út í þriðja leikhluta og voru að gera vel,“ sagði Baldur.

Taiwo Badmus, leikmaður Tindastóls átti góða innkomu af bekknum og sagði Baldur að það væri mikilvægt fyrir sitt lið.

„Hann var mjög góður í seinni hálfleik, Viðar kom inn með frábæra varnar frammistöðu, heilt yfir var þetta vel spilaður leikur,“ sagði Baldur.

Tindastóll á leik við KR næsta mánudag og spurður út í uppleggið gegn þeim kvaðst Baldur þurfa að skoða leik þeirra við ÍR og sagði að „þeir eru með Carl Lindom, Adama Darboe, Brynjar Þór Björnsson, Björn Kristjánsson og þetta er hörku lið, þetta verður barátta.“

„Við eigum fullt af heimaleikjum eftir, við ætlum okkur að vinna þá og við þurfum að ná í sigra og hver leikur er risa stór eins og staðan er núna af því að þetta er algjör pakki frá 10. sæti upp í 3. sæti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×