Innlent

Opið án tak­markana í fyrsta sinn frá opnun

Kristín Ólafsdóttir og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Ólafur Alexander Ólafsson rekstrarstjóri skemmtistaðarins Auto segir daginn í dag merkisdag fyrir alla sem hafa gaman að því að skemmta sér.
Ólafur Alexander Ólafsson rekstrarstjóri skemmtistaðarins Auto segir daginn í dag merkisdag fyrir alla sem hafa gaman að því að skemmta sér. Stöð 2

Rekstrar­stjóri Auto segir marga hafa kallað þá brjál­æðinga fyrir að hafa opnað skemmti­stað í miðjum heims­far­aldri. Í kvöld verður gal­opið og nú í fyrsta skipti án sam­komu­tak­markana.

Lífið á Íslandi varð með öllu hömlulaust á miðnætti þegar allar sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirunnar voru felldar úr gildi.

Ólafur Alexander Ólafs­­son, rekstrar­­stjóri Auto, kveðst spenntur fyrir tak­­marka­lausu djammi. Hann segir að margir hafi kallað þá „brjál­æðinga“ síðustu mánuðina, enda hafi þeir opnað skemmti­­stað í miðjum heims­far­aldri.

„Það er náttúrulega fyndið að pæla í því að þegar við erum að byrja í þessu fyrir um svona ári síðan, þá var náttúrulega tímalínan bara; allir bólusettir í sumar og þetta verður aldrei í gangi í haust. Og það hefur aldeilis annað komið á daginn,“ segir Ólafur Alexander.

Auto opnaði í kjallara Hard Rock við Lækjargötu í október á síðasta ári og Ólafur segir að þeim hafi tekist að halda opnu í um fimm vikur. Síðan hafi þeir lokað staðnum um miðjan nóvember sama ár, en haft opið samkvæmt gildandi takmörkunum síðastliðnar þrjár vikur.

„Ég býst bara við því að fólk sé aldeilis tilbúið til að mæta og skemmta sér. Þetta er náttúrulega búið að standa yfir allt of lengi og merkisdagur fyrir alla sem að finnst gaman að skemmta sér. Og ég held að það verði mikið stuð hérna um helgina,“ segir Ólafur Alexander.


Tengdar fréttir

Húrraveldið stækkar: Opna gluggalausan næturklúbb sem á að breyta leiknum

„Það sem við erum að reyna að búa til er tímalaust rými. Þú ert í gluggalausum kjallara, það er bara óendanleiki, þú veist ekkert hvað klukkan er, það eru bara ljós og speglar og reykur og stemning. Þú bara gleymir þér og veist ekkert hvað er í gangi, enda skiptir það engu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×