Sport

Fótalaus táningur glímumeistari í Virginíu fylki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adonis Lattimore lét ekki fötlun sína stoppa sig.
Adonis Lattimore lét ekki fötlun sína stoppa sig. Youtube/ WTKR News 3

Adonis Lattimore kom mörgum á óvart þegar hann lét ekki fötlun sína stöðva sig í að verða besti glímumaðurinn í fylkinu í sínum aldursflokki.

Lattimore er fæddur án þess að vera með hægri fót og vinstri fóturinn hans nær bara fram á miðjan lærlegg.

Lattimore keppti fyrir hönd Landstown gagnfræðaskólans í fylkiskeppni Virginíu þar sem hann vann úrslitaleikinn 5-1 og tryggði sér um leið sigur í 106 punda flokknum.

„Ef þú leggur mikið á þig þá getur þú gert hvað sem er, líka að verða fylkismeistari án þess að hafa fætur,“ sagði Adonis Lattimore eftir sigurinn.

Hann er líka aðeins með einn putta á hægri hendi sem gerir glímutökin enn erfiðari fyrir hann. Þjálfari hans, James Sanderlin, var alveg hoppandi kátur í lok úrslitaglímunnar eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Stórkostlegt. Hann lagði alla vinnuna á sig. Ég fékk bara að vera með honum á þessu ferðalagi. Þetta er stórkostleg tilfinning að sjá hann afreka þetta og að hann fái líka svona mikinn stuðning frá áhorfendunum. Þetta var æðislegt. Þetta er ungur maður sem er leggur mikið á sig. Ég er eiginlega orðlaus,“ sagði James Sanderlin.

„Ég er búinn að dreyma um þetta síðan að ég vissi að þetta væri til. Að hafa náð þessu núna, ég veit eiginlega ekki hvernig ég get útskýrt tilfinninguna,“ sagði Lattimore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×