„Verslun hefur færst úr miðbænum austar í borgina,“ segir í ársskýrslu fasteignafélagsins sem birti uppgjörið fyrir árið 2021 í gær.
„Eftirspurn eftir húsnæði í miðbænum hefur verið dræm en vaxandi síðari hluta ársins. Aðrar staðsetningar njóta meiri vinsælda og nægir að nefna viðskiptahluta borgarinnar frá Snorrabraut að Skeifunni þar sem eftirspurn er mikil.“
Á uppgjörsfundi Eikar í morgun var Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, spurður nánar um stöðuna í miðbænum.
„Þessi lægð sem miðbærinn er að ganga í gengum stafar fyrst og fremst af framkvæmdum og breytingum sem eru að eiga sér stað," sagði Garðar. „Við erum að horfa fram á það, sérstaklega hvað varðar skrifstofur, að mikið framboð er að koma niðri í bæ.“
Hann nefndi sem dæmi uppbygging á nýjum höfuðstöðvum Landsbankans við Austurhöfn - stór hluti af núverandi skrifstofurými bankans í miðborginni er í eigu Eikar – og uppbyggingu á nýju skrifstofuhúsnæði fyrir Alþingi.
„Það sem við erum að skoða fyrst og fremst er breytt nýting á ýmsum fermetrum niðri í bæ. Borgin er búin að opna á það að endurhugsa deiliskipulag til að takast á við þetta framboð sem er að koma,“ sagði Garðar. Áður hefur komið fram að Eik hafi til skoðunar að breyta atvinnuhúsnæði niðri í bæ í íbúðahúsnæði.
Verslun hefur færst úr miðbænum austar í borgina
Að mati Eikar eru horfurnar þó góðar þegar litið er til lengri tíma. „Ég er frekar brattur á miðbæinn til lengri tíma og held að borgarlínan eigi eftir að styrkja miðbæinn töluvert mikið. Aðkoman að miðbænum er ekki góð, sérstaklega fyrir þá sem koma á bifreið, en með borgarlínunni verður hún miklu betri.“
Rekstur Eikar á síðasta ári gekk betur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. EBITDA – rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta – nam 5.645 milljónum króna en upphafleg áætlun hljóðaði upp á mest 5.350 milljónir.