Innherji

Eik bindur vonir við að Borgarlínan glæði eftirspurn niðri í bæ

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Á næstu misserum mun losna um mikinn fjölda skrifstofufermetra í miðbænum. 
Á næstu misserum mun losna um mikinn fjölda skrifstofufermetra í miðbænum. 

Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði í miðbænum var dræm á síðasta ári samkvæmt nýrri ársskýrslu Eikar fasteignafélags. Forstjóri félagsins segir að tilkoma Borgarlínunnar muni breyta stöðunni til muna.

„Verslun hefur færst úr miðbænum austar í borgina,“ segir í ársskýrslu fasteignafélagsins sem birti uppgjörið fyrir árið 2021 í gær.

„Eftirspurn eftir húsnæði í miðbænum hefur verið dræm en vaxandi síðari hluta ársins. Aðrar staðsetningar njóta meiri vinsælda og nægir að nefna viðskiptahluta borgarinnar frá Snorrabraut að Skeifunni þar sem eftirspurn er mikil.“

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar.

Á uppgjörsfundi Eikar í morgun var Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, spurður nánar um stöðuna í miðbænum.

„Þessi lægð sem miðbærinn er að ganga í gengum stafar fyrst og fremst af framkvæmdum og breytingum sem eru að eiga sér stað," sagði Garðar. „Við erum að horfa fram á það, sérstaklega hvað varðar skrifstofur, að mikið framboð er að koma niðri í bæ.“

Hann nefndi sem dæmi uppbygging á nýjum höfuðstöðvum Landsbankans við Austurhöfn - stór hluti af núverandi skrifstofurými bankans í miðborginni er í eigu Eikar – og uppbyggingu á nýju skrifstofuhúsnæði fyrir Alþingi.

„Það sem við erum að skoða fyrst og fremst er breytt nýting á ýmsum fermetrum niðri í bæ. Borgin er búin að opna á það að endurhugsa deiliskipulag til að takast á við þetta framboð sem er að koma,“ sagði Garðar. Áður hefur komið fram að Eik hafi til skoðunar að breyta atvinnuhúsnæði niðri í bæ í íbúðahúsnæði.

Verslun hefur færst úr miðbænum austar í borgina

Að mati Eikar eru horfurnar þó góðar þegar litið er til lengri tíma. „Ég er frekar brattur á miðbæinn til lengri tíma og held að borgarlínan eigi eftir að styrkja miðbæinn töluvert mikið. Aðkoman að miðbænum er ekki góð, sérstaklega fyrir þá sem koma á bifreið, en með borgarlínunni verður hún miklu betri.“

Rekstur Eikar á síðasta ári gekk betur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. EBITDA – rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta – nam 5.645 milljónum króna en upphafleg áætlun hljóðaði upp á mest 5.350 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×