Sport

Sá besti í heimi hlýddi Vésteini og keppir á Selfossi

Sindri Sverrisson skrifar
Daniel Ståhl og Simon Pettersson faðmast eftir að hafa unnið gull og silfur á Ólympíuleikunum síðasta sumar.
Daniel Ståhl og Simon Pettersson faðmast eftir að hafa unnið gull og silfur á Ólympíuleikunum síðasta sumar. Getty/Valery Sharifulin

Gull- og silfurverðlaunahafarnir í kringlukasti á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrrasumar munu etja kappi við Guðna Val Guðnason á sérstöku afmælismóti Frjálsíþróttasambands Íslands í maí.

Um er að ræða Svíana Daniel Ståhl og Simon Petterson en mótið fer fram á Selfossi 28. maí. RÚV greindi frá þessu.

Það er einmitt Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson sem á veg og vanda að því að hingað til lands komi þeir fremstu í heimi í sinni grein, en hann þjálfar Ståhl og Petterson sem og fleira frjálsíþróttafólk í heimsklassa.

„Krakkarnir sem ég er að þjálfa eru alltaf að spyrja mig út í það hvort það sé ekki séns að fara til Íslands. Auðvitað hef ég verið í sambandi við FRÍ, og aðra aðila í gengum árin, um að það gæti orðið að veruleika,“ sagði Vésteinn við RÚV.

„Vilja keppa á Íslandi og eru spenntir fyrir því“

Það hafi svo verið upplagt tækifæri að koma til Íslands núna, með ólympíumeistara í hópnum, á 75 ára afmæli FRÍ.

Ståhl og Petterson hafa hins vegar í nógu að snúast og eru skráðir á að minnsta kosti 30 mót á árinu, og á leið á bæði EM og HM í sumar, svo ekki var hlaupið að því að finna hentugan tíma til að koma til Íslands. Þeir hlýddu hins vegar Vésteini:

„Ég lagði það upp þannig að þetta er greiði við mig. Það var sjálfsagt og þeir koma bara og vilja keppa á Íslandi og eru spenntir fyrir því. Þetta var eiginlega eina helgin sem var laus, þannig að það væri hægt að gera eitthvað. Það er bæði Evrópumót og heimsmeistaramót og ég sagði við þá að þið verðið að gera þetta fyrir mig. Og það var bara já og amen,“ sagði Vésteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×