Þetta kom fram í gögnum sem birt voru af Fjármálaeftirliti Bandaríkjanna í gær og er sagt frá í frétt Reuters. Gjöfin samsvarar rúmum sjö hundruð milljörðum króna (710.000.000.000).
Samhliða þessar gjöf seldi Musk hlutabréf í Tesla fyrir 16,4 milljarða dala. Það þurfti hann að gera vegna skattareiknings upp á tæpar tvær billjónir króna eða tvö þúsund milljarða. Sá reikningur var til kominn vegna hlutabréfakaupréttar Musks frá árinu 2012.
Sjá einnig: Selur hlutabréf til að borga tvö þúsund milljarða í skatta
Þá hefur Reuters eftir sérfræðingi að Musk hafi með gjöfinni getað sparað sér háar upphæðir sem annars hefðu þurft að fara í skattgreiðslur.
Musk fær hvorki laun né bónusa frá Tesla og er auður hans tilkominn vegna hlutabréfaeigna hans í fyrirtækinu, sem hefur aukist gífurlega í virði á undanförnum árum. Árið 2012 fékk hann kauprétt á 22,8 milljónum hluta á 6,24 dali stykkið.
Þegar þetta er skrifað er virði eins hlutar í Tesla metinn á rúma 917 dali.
Samkvæmt frétt CNN gerir gjöfin Musk að þeim Bandaríkjamanni sem gaf næst mest til góðgerðarmála á eftir Bill Gates og Melindu French Gates.
Talsmenn Tesla hafa ekki svarað fyrirspurnum um hvert gjöfin fór. Fjölmiðlar ytra rifja þó upp að Musk hét því í fyrra að gefa Sameinuðu þjóðunum sambærilega upphæð ef forsvarsmenn Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna gætu sýnt fram á hvernig sex milljarðar dala gætu leyst hungurvanda heimsins.
Stofnunin lagði fram áætlun en talsmenn hennar hafa heldur ekki svarað fyrirspurnum um hvort gjöfin hafi verið til þeirra.