Mbl.is greinir frá því að nefndin hafi samþykkt þetta 7. febrúar eftir að Jón Atli Benediktsson rektor tjáði nefndarmönnum að stjórn skólans telji að siðanefndin hafi enga lögsögu í máli Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og fræðimanns, gegn Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra.
Greint var frá því í desember að siðanefndin ætlaði að taka fyrir meintan ritstuld Ásgeirs sem Bergsveinn hefur sakað hann um. Málið varðar bókina Eyjan hans Ingólfs, sem Ásgeir gaf út í lok síðasta árs. Bergsveinn telur ljóst að seðlabankastjóri hafi í veigamiklum atriðum stuðst við bók sína Leitina að svarta víkingnum. Ásgeir hefur vísað því á bug.
Rektor ósammála nefndarmönnum
Siðanefndin taldi að hún gæti tekið málið fyrir þar sem Ásgeir væri í virku ráðningarsambandi við Háskóla Íslands, þrátt fyrir að hann hafi verið í langtíma launalausu leyfi þaðan frá því að hann tók við sem seðlabankastjóri. Fullyrt er í frétt mbl.is að nefndarmenn hafi ekki talið sér sætt lengur þegar rektor komst að öndverðri niðurstöðu.
Auk Skúla áttu Henry Alexander Henrysson og Sólveig Anna Bóasdóttir sæti í siðanefndinni. Hvorugt þeirra vildu tjá sig um málavexti þegar eftir því var leitað. Formaður siðanefndarinnar er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Félag háskólakennara og Félag prófessora skipa hvort um sig einn nefndarmann.