Innlent

Minna á bakvarðasveitina vegna mikilla forfalla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um fimmtíu starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri eru forfallaðir vegna Covid-19.
Um fimmtíu starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri eru forfallaðir vegna Covid-19. Vísir/Vilhelm

Þörf er á fleira heilbrigðisstarfsfólki á skrá í bakvarðasveitina svokölluðu vegna mikilla forfalla starfsfólks heilbrigðisstofnana sem er í einangrun.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins þar sem fram kemur að nærri þrjú hundruð starfsmenn Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri séu í einangrun, 248 á Landspítalanum og um fimmtíu á Akureyri.

„Þörf er á fleira heilbrigðisstarfsfólki á skrá sem hefur aðstæður til að veita liðsinni til að mæta vaxandi álagi á heilbrigðisstofnunum vegna fjölgunar Covid-19 smita. Annars vegar hefur innlögnum vegna Covid fjölgað nokkuð síðustu daga en það eru ekki síður forföll starfsfólks sem valda mönnunarvanda,“ segir í tilkynningunni.

Sem fyrr er jafnan mest þörf fyrir sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna en einnig er óskað eftir fólki á skrá úr öðrum heilbrigðisstéttum.

Athygli er einnig vakin á því að nemar í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sjúkraliðanámi geta skráð sig í bakvarðasveitina, en nánari upplýsingar um hana má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×