Ferðamennirnir virðast hafa verið í útsýnisflugi með íslenska flugmanninum Haraldi Diego og á ferð um landið á vegum belgíska fatahönnunarfyrirtækisins Suspicious Antwerp.
Tveir þeirra voru áhrifavaldar, sem hafa unnið með fyrirtækinu, en sá þriðji starfsmaður fyrirtækisins.
Sá yngsti var 22 ára gamall bandarískur hjólabrettakappi, Josh Neuman.
Nicola Bellavia, 32 ára gamall áhrifavaldur sem búsettur er í Belgíu var einnig í vélinni og starfsmaður fatahönnunarfyrirtækisins hét Tim Alings og var 27 ára gamall Hollendingur.
Lík þeirra fundust seinni partinn í gær á minnst 37 metra dýpi í Þingvallavatni með hjálp kafbáts.
Þeir voru allir í um 300 metra fjarlægð frá þeim stað sem flak flugvélarinnar fannst á.
Flókið að sækja þá á botninn
„Köfun á þessu dýpi er áhættusöm og þegar undirbúningi var lokið þá versnaði veðrið það mikið að við hættum öllum aðgerðum,“ sagði Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi eftir aðgerðirnar í gærkvöldi.
Reynt verður að sækja þá látnu um leið og veður leyfir.
„Við stefnum að því að sækja brakið á fimmtudag eða föstudag. Veðuglugginn... það lægir og verður orðið skaplegt veður seinni partinn á miðvikudag. Það er forgangsatriði að ná hinum látnu upp og ef að það er veðurgluggi verður fyrr þá verður farið af stað í það en aldrei áður en öryggi kafaranna og þeirra sem að þessu koma verður tryggt,“ sagði Oddur.