Erlent

Mesta elding sögunnar: Mældist um átta hundruð kíló­metra löng

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gervihnattamynd af eldingunni ógnarmiklu.
Gervihnattamynd af eldingunni ógnarmiklu. Mynd/NOAA

Alþjóðaveðurfræðistofnunin hefur opinberlega staðfest að ógnarmikil elding, sem laust niðri í Bandaríkjunum í apríl árið 2020, hafi verið sú mesta sem mælst hefur frá upphafi mælinga.

Eldingin teygði sig í um 768 kílómetra lengd í Bandaríkjunum  á svæði sem nær yfir þrjú ríki þar í landi, Missippi, Louisiana og Texas. Fyrra met var 709 kílómetrar sem mældist í Brasilíu árið 2018.

Afar fátítt er að eldingar nái að teygja sig yfir svæði stærra en tíu mílur eða sextán kílómetra að því er fram kemur í frétt BBC um eldinguna ógnarmiklu.

Stofnunin staðfesti einnig að elding sem mældist í Úrúgvæ og Argentínu árið 2020 hafi verið sú sem lengst hefur varað frá upphafi mælinga, í 17,1 sekúndu. Fyrra met stóð í 16,7 sekúndum.

Að sögn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar áttu eldingarnar sér stað yfir svæðum þar sem möguleiki er á miklum eldingaveðrum, það er að segja yfir Sléttunum miklu í Bandaríkjunum og á La Plata svæðinu í Suður-Ameríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×