Skoðun

Í­búða­markaður með krónískan há­þrýsting

Halldór Kári Sigurðarson skrifar

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,8% í desember 2021 sem þýðir að húsnæðisverð hefur hækkað um 18,4% á einu ári. Þetta er 4% meiri hækkun á árinu en Greiningardeild Húsaskjóls spáði í apríl sl. Framboðsskorturinn heldur áfram að aukast en það voru aðeins 487 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu í byrjun janúar sem er 20% minna en í byrjun desember skv. mánaðarskýrslu HMS. Þá seldust 44% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði og því ljóst að ekkert lát er á eftirspurnarþrýstingnum á markaðnum.



Heimildir: Þjóðskrá Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Kapphlaup kaupenda um íbúðir, lágvaxtaumhverfi og ásókn lánastofnana í áhættulítil útlán í heimsfaraldrinum hefur allt ýtt undir aukin útlán. Frá því að veiran kom til landsins hafa hrein ný útlán til heimilanna verið um 23 ma.kr. í meðalmánuðinum en það er 44% meira en að meðaltali frá 2016.

Heimildir: Seðlabanki Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Sé litið á þróun skulda heimilanna má sjá að þær hafa farið úr 75% af landsframleiðslu í byrjun árs 2020 upp í 85% á síðari hluta 2021. Skuldahlutfallið er hins vegar enn þá með lægra móti í sögulegu samhengi. Þá er einnig áhugavert að sjá að óverðtryggð lán eru orðin nánast jafn stór hluti af skuldum heimilanna og verðtryggð lán.



Heimildir: Seðlabanki Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Framboðsskortur og gott aðgengi að lánsfé á lágum vöxtum hefur líkt og fyrr segir skapað mikinn verðhækkanaþrýsting á íbúðamarkaðnum. Húsnæðisliðurinn hefur því skapað verðbólguþrýsting sem hefur leitt til vaxtahækkana. Síðasta vaxtaákvörðun Seðlabankans var 17. nóvember sl. og þá hækkað peningastefnunefnd meginvexti bankans úr 1,5% upp í 2% en þá stóð verðbólgan aðeins í 4,5%. Nú er verbólgan hins vegar komin upp í 5,7% og því verður áhugavert að sjá hvað peningastefnunefnd tekur til bragðs núna 9. febrúar þegar næsta vaxtaákvörðun verður tekin. Greiningardeild Húsaskjóls telur að meginvextir bankans verði hækkaðir upp í 2,75%. Verði það að veruleika er ljóst að það mun draga úr getu kaupenda á húsnæðismarkaði til að auka skuldsetningu sína og kæla markaðinn. Þrátt fyrir að vaxtahækkanir séu framundan telur undirritaður að húsnæðisverð muni halda áfram að hækka um 0,8-1,3% á mánuði næstu mánuði einfaldlega vegna þess hve mikill framboðsskorturinn er.

Höfundur er hagfræðingur Húsaskjóls.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×