Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi, en byrjað var að bólusetja börn fædd árið 2016 á mánudaginn í síðustu viku.
Hún hvetur alla til að mæta í bólusetningu í þessari eða næstu viku, en í lok þeirra næstu verður líklegast hætt að bólusetja í Laugardalshöllinni og starfseminn færð annað.
Ragnheiður Ósk segir að um á höfuðborgarsvæðinu séu um 2.700 börn fædd 2016 og af þeim hafi um 840 mætt í bólusetningu, eða um þriðjungur.
Sé litið til 2015-árgangsins má sjá að þar séu börnin um 2.800 talsins og að um 1.300 þeirra hafi mætt í bólusetningu. Hlutfallið hafi svo farið hækkandi með hverjum árgangi, en á covid.is má sjá að 44 prósent fimm til ellefu ára barna á landinu hafi nú verið bólusett með einni sprautu.
Opið til klukkan 18 í næstu viku
Hún segir að bólusetningarnar hafi gengið vel síðustu daga og vikur.
„Það hafa um um tvö þúsund verið að mæta í bólusetningu síðustu daga, mikið til fólk sem fékk Janssen síðasta sumar, fyrri örvunarsprautu í ágúst og er svo að koma aftur núna. Við hvetjum alla til að mæta í bólusetningu í þessari viku eða þeirri næstu, en í lok næstu viku missum við Laugardalshöllina og það er ekki alveg komið á hreint hvar verði svo haldið áfram að bólusetja. En við munum hafa opið alveg til klukkan 18 í næstu viku. Það fer hver að verða síðastur og við vonumst að sjálfsögðu til að sjá sem flesta,“ segir Ragnheiður Ósk.