Tíska og hönnun

André Leon Tall­ey er fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
André Leon Talley var einn dómara í fjórtándu til sautjándu þáttaröð sjónvarpsþáttanna America‘s Top Model, á árunum 2010 til 2011.
André Leon Talley var einn dómara í fjórtándu til sautjándu þáttaröð sjónvarpsþáttanna America‘s Top Model, á árunum 2010 til 2011. EPA

André Leon Talley, tískublaðamaður og fyrrverandi stjórnandi hjá bandaríska tímaritinu Vogue, er látinn, 73 ára að aldri.

Það var TMZ sem greindi fyrst frá andlátinu en Talley á að hafa andast á sjúkrahúsi í New York í gær. Ekki liggur fyrir hvað dró Talley til dauða.

Talley var mjög mikilvægur hlekkur í starfsemi Vogue á níunda og tíunda áratugnum og er talinn hafa átt ríkan þátt í að greiða leið svartra fyrirsæta í tískuheiminum. Starfaði hann fyrst sem fréttaritstjóri og síðar sem listrænn stjórnandi, undir ritstjórn Önnu Wintour.

Í frétt Guardian segir að hann hafi hætt hjá Vogue og flust til Parísar árið 1995 þar sem hann hóf störf hjá tímaritinu W. Árið 1998 sneri hann aftur til Vogue og starfaði þar allt til ársins 2013.

Hann var sömuleiðis einn dómara í fjórtándu til sautjándu þáttaröð sjónvarpsþáttanna America‘s Top Model, á árunum 2010 til 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×