Innlent

Þór­­dís Kol­brún segir um­deilt tíst ekki varða sótt­varnir

Eiður Þór Árnason skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir gagnrýnina byggða á misskilningi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir gagnrýnina byggða á misskilningi. Vísir/Vilhelm

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hafnar því að umdeilt tíst sem hún birti í gær tengist afstöðu hennar til sóttvarnaaðgerða. Í umræddri færslu á Twitter birti ráðherrann tilvitnun í bandaríska mannréttindafrömuðinn Martin Luther King Jr. og sagði að viska hans eigi einkum við á tímum þar sem atlaga hafi verið gerð að mörgum grunnréttindum fólks.

Óhætt er að segja að ummæli Þórdísar Kolbrúnar hafi valdið nokkru fjaðrafoki á Twitter þar sem gagnrýnendur settu tístið í samhengi við málflutning hennar um sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda. 

Þórdís Kolbrún segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að tístið hafi verið „hugsað í algjörri ein­lægni sem tákn um virð­ingu fyrir manni sem er sam­eig­in­leg tákn­mynd margs þess besta í fari mann­kyns; hug­rekkis, rétt­sýni og bar­áttu­þreki fyrir mann­rétt­ind­um.“ Tístið var birt á degi á Martin Luther King. 

Gagnrýnendur ráðherrans hafa sakað Þórdísi Kolbrúnu um að líkja baráttu Martin Luther King fyrir réttindum svartra Bandaríkjamanna við andóf gegn frelsistakmörkunum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Fram kemur í frétt Kjarnans að hún segi það ranga túlkun að tengja tístið skoðunum hennar á tilteknum sóttvarnaaðgerðum. Í stað þess hafi hún vísað til að víða um heim hafi borið á tilhneigingu til að takmarka frelsi fólks til tjáningar og frjálsrar hugsunar.

Þórdís Kolbrún sagði í samtali við RÚV á föstudag að Íslendingar væru að upplifa tímabil þar sem ákveðin borgaraleg réttindi hafi verið tekin að láni. Eðlilegt sé að velta fyrir sér öðrum sjónarmiðum um áhrif faraldursins, til að mynda á lýðheilsu og geðheilbrigði. Hún standi þó með ákvörðun heilbrigðisráðherra að grípa til hertra aðgerða sem tóku gildi á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×