Djokovic lenti í Ástralíu í vikunni til að taka þátt í Opna ástralska meistaramótinu, en var meinaður aðgangur að landinu þar sem að landamæraverðir sögðu hann ekki geta sýnt fram á sönnun um bólusetningu gegn kórónuveirunni og að fyrri sýking væri ekki gild ástæða til að koma til landsins án bólusetningar.
Djokovic, sem situr í efsta sæti heimslistans í tennis, bíður nú á sóttkvíarhóteli eftir að mál hans verði tekið upp í dómstólum næstkomandi mánudag.
Hann hafði áður fengið undanþágu frá bólusetningarskyldu til að taka þátt í mótinu, en sú undanþága olli miklum usla innan ástralsks samfélags, en Djokovic hefur talað gegn bólusetningum.
Í dómsskjölum sem birtust í dag segir lögfræðingur tenniskappans að hann hafi fengið tímabundna vegabréfsáritun og læknisfræðilega undanþágu frá bólusetningu við kórónuveirunni frá ástralska tennissambandinu vegna nýlegrar sýkingar.
Þá kemur einnig fram í skjölunum að undanþáguskírteinið hafi staðfest að 14 dögum eftir að hafa greinst með veiruna hafi Djokovic ekki verið með hita eða sýnt önnur einkenni Covid-19 seinustu þrjá sólarhringa.
Undanþágan var veitt af tveimur sjálfstæðum læknateymum sem ástralska tennissambandið útvegaði, ásamt Victoríuríki þar í landi.
Eins og áður segir er Djokivic staddur á sóttkvíarhóteli, en umrætt hótel hefur verið gagnrýnt af þeim sem þar hafa dvalið fyrir slæman aðbúnað. Lögfræðingar tenniskappans hafa því farið fram á að hann verði færður á annað hótel sem myndi gefa honum kost á að æfa fyrir Opna ástralska meistaramótið.