Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörgu, segir að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og í Vestmannaeyjum vegna foktjóns. Fyrsta útkallið barst rétt eftir klukkan tíu í kvöld en þar var tilkynnt um kofa sem var fauk, ásamt tilheyrandi braki, við eyðibýli á Vatnsleysuströnd.
Þá hafa björgunarsveitir elt ruslatunnur, sem fokið hafa í óveðrinu, lagað grindverk, gætt að þakklæðningum og þakplötum ásamt öðrum lausamunum. Tilkynningar hafa borist um fljúgandi þakplötur víðsvegar á Suðvesturhorni landsins.
Björgunarsveitirnar ítreka að ekkert ferðaveður sé á Suðvesturlandinu en versta veðrið verður líklega í kringum miðnætti og fram eftir nóttu. Veðurviðvaranir Veðurstofunnar eru í gildi til klukkan sex í fyrramálið.